Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Slógu nokkur vindhögg í aðdraganda úrslitakvöldsins

Mynd: RÚV / RÚV

Slógu nokkur vindhögg í aðdraganda úrslitakvöldsins

19.03.2021 - 13:42

Höfundar

Úrslit Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, fara fram á RÚV í kvöld. Það eru lið Kvennaskólans og Verzlunarskólans sem mæta ósigruð til leiks en búast má við nokkuð jafnri keppni í kvöld.

Lið Kvennaskólans er skipað þeim Ara Borg Helgasyni, Hildi Sigurbergsdóttur og Áróru Friðriksdóttur. Þau Ari og Áróra kepptu í Gettu betur á síðasta ári en Hildur er nýliði. Liðið sigraði Menntaskólann í Kópavogi með 21 stigi gegn 15 í átta liða úrslitum og lagði Menntaskólann í Reykjavík að velli síðastliðinn föstudag í æsispennandi og jafnri viðureign sem á endanum fór 29-24. 

Verzlunarskóli Íslands teflir fram þeim Sigurbjörgu Guðmundsdóttur, Eiríki Kúld Viktorssyni og Gabríel Mána Ómarssyni. Piltarnir tveir tóku þátt í Gettu betur í fyrra en Sigurbjörg, sem alltaf er kölluð Sibba af liðsfélögum sínum, er ný í liðinu. Versló hafði betur gegn MH í átta liða úrslitum í viðureign þar sem mjótt var á munum. Í undanúrslitum mætti Versló svo Tækniskólanum og hreppti þar með sæti í úrslitum Gettu betur 2021. 

Liðin hafa hvort um sig fjölda þjálfara sem halda þeim við efnið í undirbúningnum, en æfingar hafa verið stífar í aðdraganda úrslitanna. Sú hefð hefur þó skapast undanfarin ár að liðin mætist í annarri keppni, skömmu fyrir úrslitakvöldið, og spreyti sig á líkamlegri viðureign en hvíli um leið heilasellurnar. Að þessu sinni varð minigolf fyrir valinu enda krefst sú íþrótt lítillar líkamlegrar snertingar á milli andstæðinga. Kvennaskólinn hafði betur að þessu sinni en í kvöld kemur í ljós hvort úrslit minigolfsins veiti forspárgildi fyrir því hvor skólinn tekur hljóðnemann heim í kvöld. 

Viðureign liðanna í minigolfi má sjá í spilaranum hér að ofan. Úrslit Gettu betur fara fram í beinni útsendingu klukkan 19:45 á RÚV í kvöld. Spurningahöfundar eru þau Laufey Haraldsdóttir, Jóhann Alfreð Kristinsson og Sævar Helgi Bragason. Spyrill er Kristjana Arnarsdóttir.