Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Landsréttur dæmir ummæli í Hlíðamálinu ómerk

19.03.2021 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Landsréttur staðfesti í dag, að mestu leyti, dóm héraðsdóms Reykjavíkur yfir Hildi Lilliandahl Viggósdóttur og Oddnýju Arnarsdóttur vegna ummæla sem þær létu falla um tvo nafngreinda menn vegna Hlíðamálsins svokallaða. Í dómi Landsréttar eru færri ummæli dæmd eru dauð og ómerk en í dómi héraðsdóms.

Hildur var í héraðsdómi dæmd til að greiða mönnunum 150.000 krónur í skaðabætur og Oddný 220.000 krónur. Landsréttur lækkaði upphæðina hjá báðum og þurfa þær, hvor um sig, að greiða mönnunum 100.000 krónur, hvorum, í skaðabætur. Auk þess þurfa þær að greiða málskostnað.

Af ummælum Oddnýjar staðfesti Landsréttur dauð og ómerk fjögur af þeim fimm sem héraðsdómur hafi komist að sömu niðurstöðu um. Þau voru birt í frétt landpóstsins, fréttavef fjölmiðlafræðinema við Háskólann á Akureyri. Þau eru eftirfarandi:

  • „Það er ekki krafist gæsluvarðhalds yfir mönnum sem hefur í að minnsta kosti tvö mismunandi skipti tekist að nauðga konum.“
  • „Ekki nóg með að þeir nauðgi þeim heldur gera þeir það kerfisbundið.“
  • „Í bæði skiptin var bekkjarskemmtun hjá HR, í að minnsta kosti öðru tilfellinu var stúlkunni  byrlað  ólyfjan, þeir  taka þær heim í íbúð til sín og  þetta er gert í einhverskonar samstarfi. Planað á milli þessara tveggja manna.“
  • „Þetta eru tveir menn sem hafa í að minnsta kosti tvö skipti tekist að nauðga, í eitt skipti var komið í veg fyrir nauðgunina, við vitum ekkert hvað hefur gerst áður og þessir menn eru látnir lausir!“

Í málinu gegn Hildi var hluti færslu á Facebook dæmdur dauður og ómerkur en í dómi Landsréttar í dag voru færri orð færslunnar dæmd ómerkur en í héraðsdómi. Hlutinn er eftirfarandi: „...körlum sem nauðga konum SAMAN svo yfirdrifið kerfisbundið...“

Í Hlíðamálinu voru mennirnir tveir kærðir fyrir að hafa nauðgað konu í íbúð við Miklubraut í Reykjavík. Annar mannanna var kærður fyrir aðra nauðgun í sömu íbúð. Málin voru bæði felld niður.

Töluvert var fjallað um málið í fjölmiðlum og var fjórum fréttamönnum 365 árið 2017 gert að greiða mönnunum miskabætur eftir að í fréttum sagði að íbúð mannanna hefði verið sérútbúin til nauðgana.