Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Kínverjar sakaðir um tölvuárás á finnska þingið

19.03.2021 - 20:30
epa07557930 A general view of Finland's national flag (L) and the EU flag (R) in front of the Finnish parliament building during the Europe Day celebrations in Finnish capital Helsinki, Finland, 09 May 2019. The Europe Day event was co-organized by the Finnish Foreign Ministry, Finnish Broadcasting Corporation YLE, European Movement Finland, Young European Federalists Europe, and European Commission as well as the  European Parliament. The Europe Day has been celebrated 09 May since 1985 and comes ahead of the European Parliament elections, to be held between 23 and 26 May 2019.  EPA-EFE/KIMMO BRANDT
 Mynd: EPA-EFE - Compic
Tölvuglæpamenn á vegum kínverskra stjórnvalda eru sakaðir um að hafa staðið að árás á tölvukerfi finnska þingsins síðastliðið haust. Brotist var inn í tölvupósthólf þingmanna og starfsmanna þingsins. Samstarf finnsku leyniþjónustunnar og bandaríska öryggisfyrirtækisins FireEye leiddi í ljós að kínverskur hakkarahópur var að verki.

Finnska þingð greindi frá því í desember að það hefði orðið fyrir tölvuárás þá um haustið. Anu Vehviläinen þingforseti sagði við það tækifæri að árásin hefði verið ógn við öryggi og lýðræði Finnlands. Öryggislögreglan SUPO hefur síðan unnið að rannsókn innbrotsins, meðal annars með aðstoð erlendra sérfræðinga. Það var loks rakið til kínversks hakkarahóps sem nefndur hefur verið APT31.

Að sögn öryggisfyrirtækisins FireEye í San Francisco vinnur hópurinn samkvæmt fyrirmælum kínverskra stjórnvalda við að afla upplýsinga sem koma stjórnvöldum og kínverskum stjórnarfyrirtækjum og stofnunum til góða, einkum á pólitískum, hernaðarlegum og viðskiptalegum vettvangi.

Í fréttum finnska ríkisútvarpsins kemur fram að brotist var inn í tölvupósthólf allmargra þingmanna og starrfsmanna þingsins. Ekki hefur verið greint frá því hvaða upplýsingum tölvuþrjótarnir náðu.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV