Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hreiðar Már og Magnús sakfelldir en Sigurður sýknaður

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur - RÚV
Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi stjórnendur hjá Kaupþingi voru í dag sakfelldir í Landsrétti í svokölluðu CLN-máli. Sigurður Einarsson var hins vegar sýknaður.

Hreiðar og Magnús voru ekki dæmdir til refsingar vegna fyrri refsingar. Héraðsdómur hafði áður sýknað þremenningana en aðeins sýknudómur Sigurðar var staðfestur í Landsrétti í dag.   

Dómsmálið snýst um lánveitingar sem félög í eigu vildarviðskiptavina bankans fengu skömmu fyrir hrun og hefur málið oft verið nefnt sem seinasta hrunmálið. 

Saksóknari ákærði fyrir umboðssvik en sakborningar segja að lánin hafi aðeins verið hluti af aðgerðum til að styrkja stöðu bankans. 

 

Hreiðar Már, Magnús og Sigurður voru ákærðir vegna lánveitinga til aflandsfélaga í eigu vildarviðskiptavina Kaupþings skömmu fyrir hrun. Málið hefur velkst lengi í dómskerfinu. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur tvívegis sýknað sakborninga og einu sinni vísað málinu frá. Hæstiréttur og Landsréttur hafa alltaf sent það aftur í hérað. Þriggja daga aðalmeðferð fór fram í Landsrétti um miðjan febrúar.

Lánin voru veitt til viðskipta sem áttu að lækka skuldatryggingaálag á bankann. Lánin náum 510 milljónum evra, andvirði 66 milljarða króna í dag. 

Viðskiptavinir, sem skulduðu bankanum mikið fé fyrir, lögðu ekkert fé til viðskiptanna en gátu hagnast mikið á þeim. Stjórnendur bankans sögðu í málsvörn sinni að þeir hefðu verið að bregðast við skuldatryggingaálagi sem þeir töldu að væri haldið hærra en það ætti að vera. Deutsche Bank gaf út skuldabréf sem tengdust skuldatryggingaálagi og Kaupþing útvegaði viðskiptamenn til að kaupa þau með fjármögnun bankans.

Dóminn má lesa hér