Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fossvogsskóli flytur í Korpuskóla

19.03.2021 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Börnum í Fossvogsskóla verður frá og með þriðjudeginum kennt í húsnæði Korpuskóla. Það stendur við Bakkastaði í Grafarvogi og hefur staðið ónotað síðan í fyrravor þegar þrír skólar í hverfinu voru sameinaðir í tvo. Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að vissulega verði langt fyrir börnin að fara í skólann, en enginn betri kostur hafi verið í stöðunni.

Í dag fengu börnin í Fossvogsskóla kennslu utandyra, en foreldrar barna í skólanum hafa krafist þess að skólayfirvöld rými húsnæði skólans vegna myglu og sveppagróa, en fyrst varð vart við myglu í húsnæðinu árið 2019. Tilkynnt hefur verið um veikindi um 40 barna vegna þessa.

„Eðlilega þarf að hefja undirbúning skólastarfsins og færa til búnað og önnur gögn og þess vegna erum við með skipulagsdag á mánudaginn. En við gerum ráð fyrir að hefja skólastarf á þriðjudaginn,“ segir Helgi.

Færið þið búnað úr Fossvogsskóla?  „Já, við erum að flytja húsbúnað sem verður náttúrulega þrifinn og eins líka gögn sem munu fara í gegnum sérstaka meðhöndlun.  Eitthvað kaupum við líka nýtt. Er ekkert hætta á því að mygla eða myglugró flytjist með húsgögnum og búnaði? „Það er það sem við erum að koma í veg fyrir með því að þrífa þetta allt saman.“

Korpuskóli er í um 11 kílómetra  fjarlægð frá Fossvogsskóla. Spurður hvort ekki hafi komið til greina að koma skólastarfinu fyrir nær Fossvogshverfi segir Helgi að aðrir kostir hafi vissulega verið skoðaðir.

„En þarna kom lausn þar sem var hægt að koma öllum skólanum fyrir á einum stað.  Í skólahúsnæði með skólalóð og öllu sem tilheyrir skólastarfi. Þess vegna var þetta mjög fýsilegt að mati skólastjórnenda og starfsfólkið var mjög ánægt eftir að hafa skoðað aðstæður í skólanum í dag.“

Börnunum verður ekið til og frá skóla.  „Það er skólaakstur frá Fossvogsskóla og síðan er ekið þarna upp í Grafarvoginn og til baka aftur í lok skóladags.“

Helgi segir að ákvörðunin hafi verið tekin í samráði við skólaráð, þar sem foreldrar eiga fulltrúa. Hann segir ekki liggja fyrir hversu lengi börnunum verður kennt í Korpuskóla. 

„Frekari athugun á húsnæðinu hefst á mánudaginn. Það er verið að fara yfir allar fyrri mælingar og fyrri endurbætur á húsnæðinu. Eftir þá skoðun og þetta mat, þá vitum við betur hver komandi verkefni eru. Auðvitað viljum við að allar framkvæmdir í framhaldinu verði byggðar á gögnum þannig að þetta verði eins markvisst og unnt er.“

Nemendur Fossvogsskóla eru um 350. Helgi segir að Korpuskóli hafi verið ætlaður færri börnum. „Það verður þröngt um fólkið, það er alveg ljóst. En þetta er þeirra ósk (stjórnenda og starfsfólks Fossvogsskóla og fulltrúa foreldra). Við hefðum getað skipt nemendahópnum niður á tvo eða þrjá staði, en þau settu alfarið á oddinn að allir yrðu saman. Þau geta þá haft skólastarfið nær því sem þau þekkja í Fossvogsskóla.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir