Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Formennsku Íslands í Norðurskautsráði að ljúka

19.03.2021 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneytið
Síðasti fundur embættismannanefndar Norðurskautsráðsins undir íslenskri formennsku var haldinn í Reykjavík 16. til 18. mars, en Rússland tekur formlega við keflinu á ráðherrafundi í Reykjavík í maí.

Ríkin sem eiga aðild að ráðinu eru Norðurlöndin; Ísland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Finnland; ásamt Bandaríkjunum, Rússlandi og Kanada. 

Skipt er um formennsku á tveggja ára fresti og var seta Íslands í forsvari Guðlaugs Þórs lituð af COVID-19 faraldrinum. Guðlaugur Þór sagði á fundinum Íslendinga þó geta verið stolta af því sem hafi áunnist og nefndi þar helst alþjóðlega ráðstefnu um plastmengun í norðurhöfum sem haldin var á dögunum í gegnum fjarfundarbúnað með þátttakendum heimshorna á milli.

Dmitri Medvedev, fyrrum forseti og forsætisráðherra Rússa, sem situr í nýstofnuðu Norðurslóðaráði innan Öryggisráðs Rússlands hefur sagt Rússa þurfa að búa sig vel undir setuna í Norðurskautsráði. Rússlandsforseti setti ráðið á laggirnar í október vegna hernaðarlegs mikilvægis Norðurslóða fyrir Rússa.