Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fimm fyrir dansljón á leið í land

Mynd með færslu
 Mynd: Sub_Lation - The Gizz Facebook

Fimm fyrir dansljón á leið í land

19.03.2021 - 13:00

Höfundar

Hún er hressandi helgarfimman og boðið upp á frískandi sækadelíu frá sýrusveitinni King Gizzard and the Lizard Whizard; frumlegt popp frá dansboltanum San Holo; húsmæðrahús frá listamanninum Dave Lee sem kallaði sig einu sinni Joe Negro; endurhljóðblöndun á Perfume Genius og unglingaherbergis-LoFi frá Leat'eq.

King Gizzard and the Lizard Whizard – O.N.E.

Þegar King Gizzard and the Lizard Whizard gáfu út lagið O.N.E. í lok janúar tók söngvari sveitarinnar, Stu Mackenzie, sérstaklega fram að nýja platan þeirra, L.W., kæmi sko ekki út í febrúar en það gerði hún nú samt og fékk prýðilega dóma. Lagið O.N.E. hefur allt sem gott King Gizzard and the Lizard Whizard-lag þarf að hafa, byrjar rólega og fallega, svo er bætt við smá fönki og síðan gallsúru sækadelíurokki með arabískum áhrifum.


San Holo – It Hurts!

Hollenski plötusnúðurinn og tónlistarmaðurinn Sander van Dijck eða San Holo er þekktastur fyrir endurhljóðblöndun sína á lagi Dr. Dre, The Next Episode, sem hefur fengið 232 milljónn streymi á YouTube. Hann sendi frá sér fyrstu plötuna 2018 og nú er sú næsta á leiðinni. It Hurts er annar söngullinn af henni.


Sunburst Band – He Is (Jimpster Remix)

Þá er kominn tími til að setja smá húsmæðrahúsblöðru frá Sunburst Band á fóninn og æð'um gólfið eins og ljón þótt það sé sjálfsagt ei fögur sjón, eins og skáldið sagði. Lagið He Is í Jimpster Remixi kemur úr smiðju listamannsins Daves Lee sem áður kallaði sig Joey Negro. Sunburst band er fullskipuð hljómsveit hans sem spilar diskó/jazz-funk og salsa.


Perfume Genius – Without You (Jim-E Stack Remix)

Fimmta plata Perfume Genious, Set My Heart on Fire Immediately, þótti vera ein af allra bestu plötum ársins í fyrra og er núna með 91 af 100 á Metacritic því til stuðnings. Nýlega kom síðan IMMEDIATELY Remixes út. Þar eru lögin á  plötunni endurhljóðblönduð og sett í nýjan búning og Jim-E Stack fékk það hlutverk að jazza upp lagið Without You.


Leat'eq – Tokyo (Lo-Fi version)

Leat'eq er einn af svona trilljón tónlistarmönnum sem gera tónlist í unglingaherberginu sínu. Hann er frá Kaliforniu og einn af þessum heppnu sem hitta á slagara eins og Tokyo. Lagið fær endalaust streymi sem á líklega eftir að láta Leat'eq eyða næstu árum í að reyna gera næsta hitt.


Fimman á Spottanum