Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Enn fækkar skjálftum við Fagradalsfjall

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Rólegt hefur verið á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga í dag. Þar urðu þó um 1.300 skjálftar en aðeins einn þeirra mældist yfir þremur að stærð. Sá varð klukkan 11.20 í morgun, stærðin var 3,3 og upptökin á 4,5 kílómetra dýpi, 2,4 kílómetra suður af Fagradalsfjalli. Of snemmt er að segja til um hvort draga muni enn frekar úr virkninni næstu daga en von er á nýjum gervihnattamyndum sem varpað geta ljósi á þróun mála.

Vísindaráð Almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga, sem hófst 24. febrúar. Á fundinum kom meðal annars fram að GPS mælingar benda til þess að áfram flæði kvika inn í ganginn sem myndast hefur undir Fagradalsfjalli, en hægt hafi á flæðinu síðustu daga.

Skjálftavirknin á svæðinu hafi líka verið með minna móti undanfarna tvo sólarhringa, en þar sem virknin hafi verið kaflaskipt á Reykjanesskaga undanfarið ár sé of snemmt að segja til um hvort draga muni enn frekar úr skjálftavirkni eða kvikuflæði.

Elísabet Pálmadóttir, jarðvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu laust fyrir miðnætti, að von sé á nýjum gervihnattamyndum í nótt eða fyrramálið, sem nýtast munu til að greina þróun kvikusöfnunar.