Var sem fluga á vegg í innilegustu aðstæðum fólks

Mynd: Dögg Mósesdóttir / Aðsend

Var sem fluga á vegg í innilegustu aðstæðum fólks

18.03.2021 - 09:42

Höfundar

„Ég bara skalf með myndavélina,“ segir Dögg Mósesdóttir leikstjóri sem varð vitni að ýmsu við gerð heimildarmyndar sinnar Aftur heim sem fjallar um heimafæðingar. Dögg fylgdist með pörum sem kusu þá leið frá meðgöngu til fæðingar í heimahúsi, en sjálf hefur hún reynslu af slíkri fæðingu og er málefnið henni afar hugleikið.

Fyrir ekki svo löngu áttu allar íslenskar konur börnin sín í heimahúsi. Í dag er ekki nema brot kvenna sem kýs að gera svo. Heimildarmyndin Aftur heim eftir Dögg Mósesdóttur, sem fjallar um heimafæðingar, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Skjaldborg í sumar en fer í almennar sýningar í Bíó Paradís í kvöld. Dögg segir að fæðing myndarinnar hafi verið rosalega löng. „Nú mun ég nota þessa myndlíkingu mjög mikið á meðan ég tala um þessa mynd,“ bætir hún glettin við. „En ég er spennt.“ Hún ræddi um áfangann við Höllu Harðardóttur í Samfélaginu á Rás 1.

Myndin er persónuleg fyrir Dögg sem segir gott að hafa fengið tækifæri til að sýna hana fyrst á Skjaldborg í nánum hópi, áður en hún fór í almennar sýningar. „Þetta er mjög persónuleg mynd og maður getur tekið því persónulega hvernig fólk tekur myndinni.“ Aftur heim sé þó ekki endanlegur vitnisburður um hana sjálfa, þó hún fari mjög nálægt kvikmyndagerðarkonunni. „Það var hollt ferli fyrir mig að hugsa að þessi mynd er bara ein hlið af mér en ekki vísindi fyrir minn persónuleika.“

Myndinni var vel tekið á hátíðinni og það var léttir að senda hana frá sér. „Svo bara treysti ég því að hún geri sitt þegar barnið er fætt og komið í heiminn. Það er ekkert sem ég get gert lengur.“

Átti dóttur sína heima og var fegin að hafa vitað af möguleikanum

Áhugi Daggar á heimafæðingu hófst þegar hún gekk sjálf með dóttur sína, sem hún verður níu ára í apríl, og kynntist möguleikanum og valdi hann. „Eftir að ég átti dóttur mína fannst mér fáránlegt að konur vissu ekki af þessum valmöguleika og langaði bara að benda þeim á að þetta væri hægt.“

Eitt af því sem hún komst að við gerð myndarinnar er hins vegar hve persónubundnar meðgöngur og fæðingar eru og eitt henti því ekki öllum. „Það hentar ekki endilega öllum að fæða heima. Það er ekki endilega öruggast og ekkert endilega best þó það hafi verið mjög jákvæð upplifun fyrir mig.“

Skiptir máli að kona upplifi öryggi í fæðingu

Nálgun á viðfangsefnið er fremur í formi persónulegs rannsóknarferðalags en rannsóknarblaðamennsku. Ástæðan fyrir því að Dögg fór þá leið í myndinni er enda ekki síst hve persónubundin reynslan er. „Það er kannski það sem ég lærði líka, það er ekki hægt að setja konur í eitt box og það er mjög persónulegt hvernig við upplifum fæðingar og öryggi líka. Það skiptir máli að kona upplifi öryggi í fæðingu upp á bara hormónaflæði í líkamanum. Það er ekki eitthvað hippaleg sýn á fæðingar heldur er þetta bara líffræðilegt,“ segir hún.

Fólk nálægt spítala oft hræddara við fæðingar

Reynslan af fæðingum sé líka mismunandi eftir því hvar á landinu konur fæða. Í myndinni fer Dögg meðal annars til Hafnar í Hornafirði þar sem ferlið er merkilega frábrugðið því í Reykjavík og kynntist þar öflugum ljósmæðrum sem þurfi að huga að ýmsu, enda sér hvergi á landinu eins langt í næsta spítala og þar.

Þar er við lýði ákveðið flokkunarkerfi þar sem barnshafandi konur eru flokkaðar eftir því hvort meðgangan sé heilbrigð og hvort ljósmæður sjái til dæmis möguleikann á að mæðurnar geti fætt heima. Dögg hitti meðal annars eina konu þar sem þurfti að fara á spítala og beið í tvo klukkutíma eftir flugi í stað þess að bruna í nokkrar mínútur eins og ef hún hefði verið nær. „Hún var bara alveg róleg og fékk lyf til að hægja á hríðunum og beið bara. Fór svo í sinn keisara í Reykjavík.“

Í borginni finnist jafnvel mörgum spítalinn of langt í burtu þó hann sé jafnvel ekki í nema fimm mínútna akstursfjarlægð. „En það tekur alveg hálftíma að undirbúa skurðstofu svo þótt við værum komin á réttum tíma þurfum við að bíða eftir skurðstofunni,“ segir hún. Hér þróist ólíkt hugarfar út frá frábrugðnum aðstæðum. „Því nær sem fólk er spítalanum, því hræddara virðist það vera við fæðingar. Sem er mjög áhugavert.“

Segja fæðingar hræðilegast ferðalag mannsins

Um viðfangsefnið segir Dögg að í raun sé það til merkis um mikla forréttindastöðu að hafa rými til að velta heimafæðingum fyrir sér og bera saman við spítala. Ekki alls staðar hafi konur báða þessa kosti eða aðgang að öruggri og góðri þjónustu.

„Auðvitað eru konur um allan heim, sem hafa ekki aðgengi að sjúkrahúsum og svo framvegis. Og við vitum að fjöldi kvenna deyr daglega við fæðingu.“ Af þeim sökum sé ekki hægt að setja samasemmerki á milli þess hvernig fæðingar fara fram á Íslandi annars vegar og í þróunarlöndum hins vegar, til dæmis. „Ég hef hitt lækna sem starfa í Afríku og segja að hræðilegasta ferðalag sem maðurinn gangi í gegnum sé fæðing, eftir að hafa séð hræðilega hluti þar sem er engin heilbrigðisþjónusta. Það má ekki gleyma að við búum við svo mikil forréttindi. Þess vegna gat ég ekki búið til mynd sem segir: Svona eru heimafæðingar, því þetta er bara Ísland.“

Mikilvægt fyrir konur að líða sem þær hafi stjórn

Þrátt fyrir mikið öryggi hérlendis segir Dögg margar íslenskar konur fá áfall eftir fæðingu. Sumir tengi aukna tíðni fæðingarþunglyndis við upplifun á fæðingunni sjálfri. Því sé til dæmis mikilvægt að konum líði eins og þær hafi stjórn á aðstæðunum, að einhverju leyti að minnsta kosti, á meðan á henni stendur en ekki að þær séu sviptar því. „Þetta er rosalega viðkvæmt ferli og það verður að passa upp á að þær séu valdefldar.“

Eins og talað er um í myndinni er líkamsminnið sterkt og ýmislegt getur komið upp á yfirborðið í fæðingu sem triggerar. „Sumar konur hafa lýst því að þær upplifi fæðingu eins og kynferðisofbeldi og hafa fengið sömu einkenni; þunglyndi og áfallastreituröskun eftir fæðingar.“

Hún segir sérstaklega áberandi í heimaþjónustunni, þó ekkert segi að það geti ekki verið á spítölum líka, að konurnar kynnast ljósmæðrunum vel og það auki öryggistilfinningu og tilfinningu fyrir stjórn á aðstæðum. „Það er svo stór hluti af því að fæða, að kynnast konunni og mynda traust. Þetta hefur týnst innan spítalavæðingarinnar en það er margt gott sem hægt er að búa til innan spítalans líka.“

Vel menntaðar hugsjónakonur sem brenna fyrir málstaðinn

Dögg er í myndinni sem fluga á vegg í einum innilegustu aðstæðum sem fyrirfinnast. Hún segir að þrátt fyrir það hafi verið ótrúlega auðvelt að finna konur sem voru tilbúnar að leyfa henni að fylgja sér eftir á meðgöngu og í fæðingu. „Þó þetta sé eitthvað sem flestar vilji að sé sitt einkamál þá eru þetta líka miklar hugsjónakonur. Yfirleitt eru heimafæðingakonur vel menntaðar og búnar að kynna sér málin mjög vel.“ Og málstaðurinn skipti þær oft miklu máli.

Hún nefnir sem dæmi að ein konan hafi farið langt út fyrir þægindarammann með þátttöku sinni þar sem hún sé ekki mikið fyrir að vekja á sér athygli. „Þetta var erfitt fyrir hana en bara fyrir málstaðinn lét hún sig hafa það.“

Skalf með myndavélina á meðan beðið var eftir sjúkrabílnum

Eitt parið sem gengur í gegnum barnsburð saman í myndinni er skilið í dag og Dögg segir að eflaust sé skrýtið fyrir þau í dag að sjá sig saman á skjánum á svo innilegu augnabliki.

Hún segir einnig frá því að í annarri fæðingu hafi naflastrengurinn reynst þrívafinn um háls barnsins þegar það kom út og það var uggvænlegt að fylgjast með því. „Ég bara skalf með myndavélina,“ segir Dögg og heldur áfram: „Ljósmæðurnar voru bara: Sjúkrabíllinn má bara koma mjög hratt.“ 

Ljóst hafi verið að ljósmæðurnar vissu að það yrði í lagi með barnið en þær voru miður sín yfir atvikinu, sem Dögg segir afar sjaldgæft. „Akkúrat þegar ég kem með myndavélina þá gerðist þetta.“ Dögg bætir því við að mikil ró hafi einkennt fas bæði móður og ljósmæðra sem mögulega hefði verið erfiðara að viðhalda á spítala.

„Það var svo mikið traust. Hefði þetta verið á spítala veit ég ekki hvernig ástandið hefði verið, fólk að koma inn og út.“ Drengurinn hafi dafnað vel og í raun hafi aldrei verið tvísýnt um það. „Hann þurfti bara að vera í nokkra daga á spítala til að jafna sig.“

Áströlsk kona fæddi barn fyrir samkynja par

Staðgöngumæðrun er svo siðferðislega umdeilt mál sem einnig er fjallað um í myndinni en það gerðist nokkuð óvænt. „Þessi mynd var alltaf að koma á óvart því ég gat ekki stýrt því mikið hverjir leyfðu mér að taka upp fæðinguna sína. En þegar þetta var komið á borð til mín, að ég gæti fengið að vera viðstödd þar sem áströlsk kona var að fæða fyrir hommapar, fór allt í hringi í hausnum á mér.“

Dögg hafði sjálf ekki myndað sér fastmótaða skoðun á málinu en hafði alltaf lagt upp með að myndin væri femínisk og valdeflandi fyrir konur. Um stund velti hún fyrir sér hvað reynsla staðgöngumóðurinnar og tilvonandi foreldra barnsins segði um myndina. „En svo kom það mér á óvart, þessi kona og ástæðurnar fyrir því að hún var að gera þetta, sem á hennar hátt er valdeflandi.“ Ferlið hafi reynst farsælt fyrir alla. „Ég ákvað að leyfa þessu að vera þarna því ég vissi ekki alveg hvað mér fyndist. Það er gott þegar eitthvað er ekki alveg svarthvítt. Ég er enn að hugsa um þetta og held að áhorfendur muni gera það líka.“

Halla Harðardóttir ræddi við Dögg Mósesdóttur í Samfélaginu á Rás 1.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Erfiðast að segja konunni og börnunum sannleikann

Tónlist

Heimildarmynd um Hatara í alþjóðlega dreifingu