Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Umfangsmesta morðrannsókn Íslandssögunnar

Mynd: RÚV / RÚV
Fjórir voru handteknir í aðgerðum lögreglu í dag vegna rannsóknar á morðinu í Rauðagerði. Að auki var leitað á sex stöðum. 14 manns hafa verið handtekin frá því rannsókn hófst fyrir rúmum mánuði síðan, 12 eru með stöðu sakbornings og lögreglan hefur leitað á yfir 30 stöðum. Þetta er langumfangsmesta morðrannsókn lögreglunnar til þessa.

Skotinn níu sinnum

Armando Bequiri, ríflega þrítugur fjölskyldufaðir frá Albaníu, var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði seint á laugardagskvöldinu 13. febrúar. Hann var skotinn níu sinnum í líkama og höfuð og var úrskurðaður látinn á bráðamóttöku Landspítalans. 

Litháískur maður var handtekinn í Garðabæ þá um nóttina. Á mánudeginum voru fjórir til viðbótar handteknir í sumarbústað á Suðurlandi, þeirra á meðal var eini Íslendingurinn sem verið hefur í haldi vegna málsins. Daginn eftir voru fjögur handtekin, þar á meðal sá sem er grunaður um að hafa skotið Armando til bana. Einni konu var sleppt og þá voru 7 í haldi. 

Sakborningar í haldi frá sjö löndum

Tveimur dögum síðar voru tveir albanskir menn handteknir. Einum var svo sleppt, en tveir aðrir handteknir. Þarna var vika liðin frá morðinu og níu manns í haldi frá sjö löndum: Albaníu, Íslandi, Rúmeníu, Eistlandi, Litháen, Portúgal og Spáni. 23. febrúar var tveimur sleppt, en settir í farbann. Yfirheyrslur stóðu svo yfir næstu daga. 1. mars var Litháanum sleppt eftir tveggja vikna varðhald. Daginn eftir var Íslendingnum sleppt og svo einum til viðbótar. Þá voru fjögur í haldi og fimm í farbanni. 

Enn fleiri handtökur í dag

Lögreglan hélt áfram rannsókn sinni næstu tvær vikurnar og var verjandi Íslendingsins meðal annars úrskurðaður sem vitni í málinu. Hann hefur enn ekki verið boðaður í skýrslutöku. Í gær var einum sleppt. Þrjú sitja áfram inni,  tveir karlar og kona, og sex í farbanni. Í dag leitaði lögreglan á sex stöðum, á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, og handtók fjóra. Enginn þeirra hefur áður verið í haldi vegna málsins en samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim. 

Hafa leitað á yfir 30 stöðum

Lögreglan hefur alls handtekið 14 vegna morðsins, 12 hafa réttarstöðu sakbornings, sex sæta farbanni og búið er að leita á yfir þrjátíu stöðum og leggja meðal annars hald á ökutæki og vopn. Nú hefur fyrsti úrskurðurinn í málinu verið birtur. 

Verjandi orðinn vitni

Þar fellir Landsréttur skipun verjanda Íslendingsins úr gildi, þar sem hann er talinn mikilvægt vitni í málinu. Lögreglan telur víst að Íslendingurinn eigi þátt í morðinu. Í úrskurðinum segir líka að Armando hafi verið skotinn níu sinnum, í höfuð og líkama. Níu skothylki voru á vettvangi, en byssan er ófundin. Þá telur lögreglan að morðinginn hafi ekki verið einn að verki, heldur hafi glæpurinn verið framinn í samverknaði nokkurra. Enginn frá lögreglunni gat veitt viðtal í dag.