Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um 100 sendir í sóttkví — 50 starfsmenn Landspítala

18.03.2021 - 16:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Að minnsta kosti hundrað manns eru í sóttkví í tengslum við kórónuveirusmitið sem greindist í gær utan sóttkvíar, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum. Smitrakning stendur enn yfir og beðið er eftir niðurstöðu úr raðgreiningu á smitinu.

Starfsfólk Hótel Nesjavalla og Súmac í sóttkví

Konan sem greindist með COVID-19 í gær starfar á Hótel Nesjavöllum og var síðast í vinnu á sunnudag, en hefur ekki hitt hótelgesti síðan 7. mars, eins og Vísir.is greindi frá. Um það bil þrjátíu starfsmenn hótelkeðjunnar ION eru í sóttkví, bæði starfsfólk hótelsins og starfsfólk veitingastaðarins Súmac, eftir sameiginlegt starfsmannateiti. Sigurlaug Sverrisdóttir, einn eigenda ION, segir í samtali við fréttastofu að konan hafi byrjað að finna fyrir einkennum í gær og farið strax í sýnatöku, þrátt fyrir að einkennin væru mild. Hún veit ekki hvar hún kann að hafa smitast.

Starfsmenn Landspítala og nemendur við Mími

Konan er í námi í skólanum Mími símenntun og sautján nemendur og einn kennari þar eru nú í sóttkví. Þar að auki hafa verið sendir í sóttkví rúmlega 50 starfsmenn Landspítalans sem tilheyra 28 starfseiningum spítalans eftir að hafa verið í fræðslu í Mími yfir nokkra daga. Starfsmennirnir sóttu þar reglubundna fræðslu í tengslum við starfsþjálfun.

Anney Þórunn Þorvaldsdóttir, aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Mímis, segir að það sé lán í óláni að kennslutímar í síðustu viku hefðu ekki farið fram í aðalhúsnæði skólans, heldur í minna húsnæði skólans við Öldugötu 23. Allir sem hafa verið í húsinu síðustu vikuna hafa verið boðaðir í skimun, um 120 manns. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í dag að smitrakning væri enn í gangi. 

„Það er ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af smitinu sem greindist í gær utan sóttkvíar og við erum á fullu í að rekja það smit og setja fólk í sóttkví og skima í kringum þennan einstakling eins og hægt er. Ég held að þetta sé tækifæri til að hvetja fólk til að fara í sýnatöku hafi það minnstu einkenni sem geta bent til COVID-19, og fara eftir öllum leiðbeiningum,“ sagði hann.