Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tókust á um landamæraaðgerðir á Alþingi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra segir að ákvörðun um að opna landið enn frekar hafi stórkostlega efnislega þýðingu, ekki aðeins í efnahagslegu tilliti heldur líka varðandi frelsi til að endurheimta fyrra líf. Þingmaður Samfylkingarinnar segir stöðuna hér öfundsverða og að henni sé teflt í tvísýnu.

Litakóðunarkerfi tekur gildi 1. maí, samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra en það felur í sér að fólk sem kemur frá löndum sem sóttvarnastofnun Evrópu metur græn eða appelsínugul þurfi ekki að sæta tvöfaldri skimun á landamærum og sóttkví á milli.

Þá hefur dómsmálaráðherra kynnt að reglugerð taki gildi á næstu dögum um að ferðamenn frá löndum utan Schengen-svæðisins megi koma hingað til lands ef þeir framvísa viðurkenndu bólusetningarvottorði.

Opnara land áhættunnar virði?

Þetta þýðir að verið er að opna landið meira en áður, árangur í baráttunni hér á landi þykir góður, staðan sé öfundsverð og spurt var á Alþingi í dag hvort þetta væri áhættunnar virði.

„Þessu er nú verið að tefla í tvísýnu, þetta virðist ríkisstjórnin hafa gert að höfðu samráði við ferðaþjónustuna enda eru þar miklir hagsmuni í húfi sem að við höfum öll skilning á,“ sagði Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

Og Guðmundur Andri beindi spurningum sínum til fjármálaráðherra um hvort farið væri að sóttvarnalögum: „Og því spyr ég hæstvirtan ráðherra aftur hvort hann telji að hér hafi verið farið að lögum,“ sagði hann.

Fjármálaráðherra ítrekaði að verið væri að spyrja hann um ákvarðanir annarra ráðherra og á þar við dóms- og heilbrigðisráðherra og sagðist enga skoðun hafa á því hvort þær standist 12. grein laganna. „Ég trúi því ekki að háttvirtur þingmaður sé orðinn svo mikill formalisti að hann hafi ekki efnislega skoðun á þessu máli. Þetta mál hefur efnislega þýðingu stórkostlega fyrir okkur í ekki bara efnahagslegu tilliti heldur líka bara varðandi frelsi okkar hér innanlands til þess að endurheimta fyrra líf,“ sagði Bjarni Benediktsson. 

Fjármálaráðherra segir að treysta verði bólusetningum og bóluefnum í báðar áttir, bæði innanlands og utan. „Og ég segi þetta vitandi allt um það að það geta komið upp ný afbrigði veirunnar sem þarf að bregðast við en að því gefnu að við séum ekki að glíma við eitthvað slíkt þá finnst mér þetta hafa verið mjög eðlileg ráðstöfun hjá ráðherrunum,“ sagði hann.