Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þingmenn hvetja til aukins framboðs grænkerafæðis

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV/Landinn
Þingsályktunartillaga nokkurra þingmanna um aukningu framboðs og neyslu grænkærafæðis var lögð fyrir Alþingi í morgun undir forystu Samfylkingarþingmannanna fráfarandi, Ágústs Ólafs Ágústssonar og Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur.

Þingmennirnir leggja að ríkisstjórninni að stofna nefnd til undirbúnings markvissra aðgerða til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

Tilgangurinn með þingsályktuninni sé að draga úr hamfarahlýnun, auka dýravelferð, stuðla að ábyrgari auðlindanýtingu, minnka kolefnisspor matvæla og bæta heilsufar fólks.

Allt haldist þetta í hendur að mati flutningsmanna sem hvetja til að innlend grænmetisframleiðsla verði styrkt til muna en stjórnvöld styrkja matvælaframleiðslu með búvörusamningum.

Stjórnvöld eru jafnframt hvött til að grænkerafæði verði enn frekar á boðstólum í skólum, stofnunum og fyrirtækjum enda gegni þau veigamiklu hlutverki þegar kemur að bættu heilsufari og lýðheilsu.