Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Suðurstrandarvegi lokað vegna aukins sigs

Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Suðurstrandarvegi verður lokað frá og með klukkan 18 í kvöld fimmtudag og að minnsta kosti til morguns. Þá verður ástand vegarins metið að nýju. Lokað verður austan Grindavíkur og vestan vegamóta Krýsuvíkurvegar.

Ökumenn sem koma að austan geta ekið um Krýsuvíkurleið. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að aukins sigs hafi orðið vart í veginum við Festarfjall frá því sem var fyrr í vikunni.

Vegurinn hefur verið þrengdur og þungatakmarkanir settar á en þrátt fyrir það hefur Vegagerðin áhyggjur af því að hann sígi meira og taki breytingum.

Undanfarið hefur rignt á svæðinu og þannig spáir áfram, sem gæti haft áhrif á ástandið. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að þrátt fyrir lokun vegarins sé mögulegt að opna hann í skyndingu fyrir einstefnuumferð til austurs gerist þess þörf.