Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Óvíst hvenær AstraZeneca—bólusetning hefst á ný

18.03.2021 - 21:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Almannavarnir/Grímur Jón  - RÚV
Heilbrigðisyfirvöld hér á landi hafa ekki tekið ákvörðun um það hvenær verður aftur farið að bólusetja með bóluefni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca.

Vísindaráð Lyfjastofnunar Evrópu komst í dag að þeirri niðurstöðu að ekkert mælti gegn því að fólk yrði bólusett gegn COVID-19 með bóluefni AstraZeneca sem vísindamenn við Oxford-háskóla þróuðu. Nokkur ríki hættu tímabundið að nota efnið, þar á meðal Ísland, eftir að tilkynningar bárust um að fólk hefði fengið blóðtappa eftir að hafa verið bólusett.

Talsmaður Lyfjastofnunar Evrópu sagði í dag að bóluefnið væri bæði öruggt og virkaði vel. Færri hefðu fengið blóðtappa eftir að hafa fengið efnið en búast hefði mátt við.

Yfirvöld í Frakklandi, Þýskalandi, Slóveníu, Búlgaríu, á Ítalíu og Spáni hafa gefið það út að þau byrji aftur að bólusetja með efninu á næstu dögum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við fréttastofu í kvöld að það væri enn óljóst hvenær því yrði haldið áfram hér á landi.