Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Orkuskipti í Grímsey gætu hafist í sumar

18.03.2021 - 15:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Á næstu mánuðum er stefnt að því að stíga stór skref í orkuskiptum í Grímsey með uppsetningu á vindmyllum og sólarorkuveri. Ef áætanir ganga eftir gætu framkvæmdir hafist í byrjun sumars.

Um 400 þúsund lítrum af dísilolíu er brennt í Grímsey árlega til að framleiða rafmagn og hita upp hús í eyjunni. Áætlað er að losun gróðurhúsalofttegunda sé um 1.000 tonn á ári. Ofan á þetta bætist svo eldsneytisnotkun farartækja og fiskibáta.

Íbúarnir hafa þegar fengið stuðning til að einangra hús sín betur og orkusparandi LED perur hafa verið settar í ljósastaura. Þá er stefnt að því að útvega heimilum í Grímsey slíkar perur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Allt rafmagn í Grímsey er framleitt með dísilrafstöð

Nú hefur verið samið við skoska framleiðendur um kaup á vindmyllum til að framleiða rafmagn. Stefnt er að uppsetningu á tveimur vindmyllum sem samtals framleiða um 30.000 kílóvattstundir á ári. Þá er áformað að setja upp sólarorkuver sem gæti framleitt allt að 10.000 kílóvattstundir á ári. Reynslan af þessu yrði nýtt til að þróa lausnir fyrir íbúana sem gætu þá sett sólarsellur á og við hús sín án kostnaðar.

Þessar fyrstu aðgerðir eiga að minnka olíunotkun í Grímsey um 20 þúsund lítra og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50 tonn á ári. Í tilkynningu frá Akureyrrabæ kemur fram að verði reynslan af þessum nýju kerfum góð, sé markmiðið að auka hlut grænna orkugjafa enn frekar í náinni framtíð.