Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Of snemmt að blása af eldgos á Reykjanesskaga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn streymir kvika inn í kvikuganginn milli Keilis og Nátthaga á Reykjanesskaga en þó hefur dregið úr skjálftavirkni og aflögun. Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni, segir enn of snemmt af blása af þann möguleika að eldgos hefjist á næstu vikum. Dálítill kippur kom í jarðskjálftavirkni í morgun sem sýnir að sveiflur eru í virkni.

„Það hefur verið mun rólegra undanfarna sólarhringa kannski tvo sólarhringa bæði í skjálftavirkni en einnig er að draga úr aflögun,“ segir Benedikt.

Má álykta að kvikan inni í þessum kvikugangi sé að storkna?

„Við vitum að hún storknar mjög hratt en þenslumerkið bendir til þess að það sé ennþá flæði inn í kerfið og kannski segir ekkert um storknun sem slíka heldur frekar það að það er flæði af dýpi einhvers staðar að koma inn í efri hluta jarðskorpunnar. Það flæði geti verið eitthvað að minnka. Það er kannski sú túlkun sem við sjáum í þessu. En það er ekki eina túlkunin. Það gæti bara verið hlé aðeins og svo tekur þetta við sér aftur,“ segir Benedikt.

Myndirðu telja að líkur á eldgosi á allra næstu vikum hafi núna minnkað?

„Það er of snemmt að segja að þær hafi minnkað. Ég myndi vilja bíða átekta alla vega til morgundags eða nokkra daga áður en við förum að álykta um líkur hvort eru það eru einhverjar breytingar á líkum á eldgosi. Meðan við erum að sjá flæði inn þá held ég að við verðum að telja talsverðar líkur, meðan það stoppar ekki þá eru alltaf líkur á að kvika fari að leita annað og upp á yfirborð er alltaf einn möguleiki,“ segir Benedikt.

Þannig að fólk getur alltaf búist við því að það komi snarpur skjálfti jafnvel yfir 4 að stærð?

„Já, við verðum alveg að vera viðbúin því að það komi skjálftar sem finnast,“ segir Benedikt.