Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Nauðsynlegt að tryggja öruggar ferjusiglingar

18.03.2021 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Atvinnuveganefnd Alþingis sendi frá sér ályktun eftir fund nefndarinnar í morgun um nauðsyn þess, að tryggja öruggar ferjusiglingar yfir Breiðafjörð og skoraði á Vegagerðina í þeim efnum. Samstaða var um ályktunina í nefndinni.

 

Á fundinum var fjallað um ferjusiglingar á Breiðafirði með tilliti til atvinnuuppbyggingar á sunnanverðum Vestfjörðum.

Breiðafjarðaferjan Baldur bilaði í síðustu viku; farþegar voru fastir um borð í rúman sólarhring og hafa margir kallað eftir aðgerðum strax. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar, segir að nefndin vilji tryggja öruggar ferjusiglingar. „Niðurstaðan var sú að atvinnuveganefnd sendir frá sér ályktun sem gengur út á það að það verði að tryggja öruggar ferjusiglingar. Þær séu lykillinn að vexti atvinnulífs og flutningi á fólki og öryggi íbúa á svæðinu með því að tryggja öryggi í samgöngum yfir Breiðafjörðinn til framtíðar. Við í framhaldinu skorum á Vegagerðina að skoða möguleika á að nýta Herjólf þriðja eins og hann er kallaður eða leita annarra leiða þar til varanleg lausn er fundin með nýju skipi til framtíðar.“

Var samstaða í nefndinni um þessa ályktun?„ já algjör samstaða í nefndinni.“

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV