Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Loftslagsaðgerðir mest íþyngjandi fyrir lágtekjuhópa

18.03.2021 - 16:08
Mynd: BSRB / BSRB
Verkalýðshreyfingin leggur til að stofnaður verði sérstakur vinnuhópur innan Þjóðhagsráðs til að tryggja að umskipti yfir í kolefnislaust Ísland verði réttlát. Aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum núna séu hlutfallslega mest íþyngjandi fyrir lágtekjuhópa og ívilnanirnar gagnist helst fólki í efri tekjuhópum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem verkalýðshreyfingin kynnti í dag. 

Ný skýrsla

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB og einn skýrsluhöfunda, segir að vinna þurfi hratt því einungis 10 ár eru til stefnu. 

Skýrslan heitir Réttlát umskipti: Leiðin að kolefnislausu samfélagi. Hún er unnin í samstarfi við 14 samtök launafólks í sex ríkjum á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Sigríður segir að snúa þurfi þróuninni við á næstu tíu árum. Í aðgerðaráætlun stjórnvalda sé rík áhersla sé lögð á orkuskipti í vegasamgöngum sem sé mjög mikilvægt. Það sé gert með því að vera með ívilnanir á hreinorkubíla og álögur á jarðefnaeldsneyti og þá bíla sem nota það. „Og við vitum samt að tekjuhærri hópar eru frekar að kaupa hreinorkubílana af því þetta eru dýrar bifreiðar en hlutfallslega lendir skattlagningin á jarðefnaeldsneyti þyngra á tekjulægri hópum. Og þegar þetta er augljós niðurstaða þá þarf að koma með mótvægisaðgerðir.“

Mótvægisaðgerðir geti verið fjárfestingar í þjónustu sem komi í staðinn fyrir það sem er verið að skattleggja [..] og einnig hafi verið talað um beinar greiðslur til heimila. 

Vilja stofna vinnuhóp

Sigríður segir að verkalýðshreyfingin sé ekki að setja fram fullmótaðar tillögur heldur vilji hún koma að borðinu, vera þátttakandi í því að móta tillögurnar. Lagt er til að stofnaður verði vinnuhópur innan Þjóðhagsráðs sem mótaði stefnu um réttlát umskipti. 

„Við munum byrja samtal við stjórnvöld og aðilana [vinnumarkaðarins] og ég held að á þessari stundu sé alveg óþarfi að vera annað en bjartsýnn. Hvenær gerir þú þér vonir um að þetta verði að veruleika? Ég vona að það verði sem fyrst. Við þurfum að vinna hratt. Það er svo auðvelt að segja „loftslagsbreytingar eru fram undan, við þurfum að fara í miklar aðgerðir“ en það eru 10 ár sem við höfum til stefnu. Þetta er mjög skammur tími og samvinna og réttlát dreifing ávinnings sem og kostnaðar er lykilatriði til að fá alla um borð.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV