Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Grásleppuveiðar mega hefjast í næstu viku

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Heimilt verður að hefja grásleppuveiðar að morgni þriðjudagsins 23. mars samkvæmt reglugerð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað. Veiðar á innanverðum Breiðafirði eru undanskildar, en þar má ekki byrja fyrr en 20. maí.

Leyfi til grásleppuveiða gildir í 25 daga samfellt og skal bundið við ákveðið veiðisvæði og veiðitímabil. Grásleppumiðum við landið er skipt upp í sjö veiðisvæði og er veiðitímabilið 23. mars til 30. júní, nema á innanverðum Breiðafirði, þar er veiðitíminn 20. maí til 12. ágúst.

Nýmæli er í reglugerðinni að Fiskistofu er skylt að fella úr gildi leyfi á öllum veiðisvæðum, utan þeirra sem tilheyra svæði á innanverðum Breiðafirði, til að koma í veg fyrir að veiðar gætu orðið skaðlegar með tilliti til sjálfbærrar nýtingar grásleppu­stofnsins og heildarafli á þessum svæðum fari umfram 78% af ráðlögðum hámarksafla.

Þá hefur ráðherra fellt út gildi málsgrein úr reglugerð um nýtingu afla og aukaafurða sem segir: „Við hrognkelsaveiðar er skylt að koma með öll hrognkelsi að landi.“ Því verður á komandi grásleppuvertíð ekki skylt að koma með grásleppuna að landi eftir að sjómenn hafa hirt úr henni hrognin.

Á vef Landssambands smábátaeigenda kemur fram að búist er við að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla á vertíðinni verði birt 31. mars.