Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Á tímum sem þessum er nauðsyn að huga að eftirlífinu

Mynd: Brynjólfur Þorsteinssn / Einkasafn

Á tímum sem þessum er nauðsyn að huga að eftirlífinu

18.03.2021 - 14:35

Höfundar

Sonur grafarans, draugabók er ljóðabók með dramatis personae eftir Brynjólf Þorsteinsson sem fyrir tveimur árum sendi frá sér ljóðabókina Þetta er ekki bílastæði. Um þá bók var sagt að hún væri fjörugur óður til ímyndunaraflsins og skýrum tengingum við samtímann. Sonur grafarans er ekki síður óður til ímyndunaraflsins og með skýrum tengingum við samtímann bara allt öðruvísi.

Ljóðabókin Sonur grafarans er að mörgu leyti einstök meðal ljóðabóka ársins 2020, sem var gjöfult ljóðabókaár. Nokkuð margar þessara bóka höfðu sterkar  sjálfsævisögulegar skírskotanir. Sonur grafarans er hins vega bók með sviðsetningum og byggð á ákveðinni heildarhugmynd sem opnast strax á fyrstu innsíðu bókarinnar með uppdrætti af sviðinu og yfirliti dramatis personae sem eru sonur grafarans sjálfur, Mutter: þýsk; grafarinn: faðirinn; Evfemía skófla; gestur sem og níuhundruðníutíu og sjö draugar. Í samræmi við þetta eru ljóðin oft sett upp sem þættir í leikriti. „Þetta er samtal, á leiksviði sem mér finnst heillandi,“ segir Brynjólfur, „en mér fannst ég verða að útskýra. Ljóðabækur eru yfirleitt ein rödd, einn ljóðmælandi, og ekkert vesen upp á það að gera. Hér eru mælendur hins vegar margir og mér fannst ég þurfa að gera grein fyrir því strax á fyrstu síðu. Svo er það líka stemning og með samtölum má hraða á hrynjandi texta, finnst mér.“

Bókin skiptist í þrjá hluta, fyrsti hlutinn heitir „moldarstrákur“, annar hlutinn „í veggjum bernskuheimilisins“ og sá þriðji er svo „eftir máli“. Í fyrsta hlutanum eru leikendur og aðstæður allar kynntar.  Í miðhlutanum, sem er sýnu lengstur, er svo heimur drauganna í fyrirrúmi. Þar er gripið til helstu heimilda um slík fyrirbæri eins og þjóðsagna og bóka um íslensk þjóðhætti með tilheyrandi endurnýjun og útúrdúrum eins og t.d. í ljóðinu „Meðala-Jón“ þar sem finna má gömul hollráð til forða því að kvillar eins og brjóstveiki og nábítur dragi til dauða og er ráðið við nábít er auðvitað að bíta ná – nærtækt í kirkjugarði. Í þessum miðhluta bókarinnar eiga draugar kirkjugarðsins sviðið jafnvel heill kór

Kór

lík eru aldrei ein
líkur sækir líkan heim

í fjörugrjót
hraungjótur
í baðkarið - vatni varla orið kalt

á eftir líki kemur fylgd
fylgjur eins og kór í grískum harmleik
lík eru aldrei ein

náir eru góðir nágrannar
gestbeinar
líkur sækir líkan heim

framliðnir bjóða lið sitt fram
rétta hjálparhönd - kalda
eins og gamalt baðvatn

vofur eru sjaldan voveiflegar
bóða alla velkomna
einnig þá sem deyja sviplega

lík eru aldrei ein
líkur sækir líkan heim

Brynjólfur segir ljóðabókina Sonur grafarans hafa komið til sín eins og púsl, „sem ég síðan þurfti að raða saman. Lengi vel var ég alls ekki viss um hvað ég var með í höndunum en svo kom heildarmyndin og þá gat ég farið að raða hlutunum saman einmitt á tíma sem fyrsta Covid-einangrunin stóð sem hæst.“ Brynjólfur segir hugmyndir að ljóði koma snöggt upp í hugann, en síðan sé hann lengi að snurfusa, „ég verð eiginlega andsetinn," segir hann.

Eins og ljóst má vera er ljóðabókin Sonur grafarans heildstætt verk, ein saga. Brynjólfur segist hafa tilhneigingu til yrkja stök ljóð eins og fyrri bók hans Þetta er ekki bílastæði vitnar um. Í þessu tilviki hafi hafi hans hins vegar viljað ögra sjálfum sér og hafi viljað ná að skapa gotneskt andrúmsloft, óhugnað.

GJÖRNINGAVEÐUR

höfuðkúpur: kertastjakar
koma sér vel þegar rafmagnið fer

brjóstkassar: matardiskar
undir rómantíska kvöldmáltíð

lærleggir: hamrar
til að negla aftur glugga og hurðir

hnéskeljar: Það er gott að súpa vín
um haust

fótabein:
við skulum ekki gera flautur úr þeim

það kitlar svo
og vindurinn úti nægir í kvöld

veðrið er rautt
setjumst að snæðingi 

Brynjólfur Þorsteinsson þekkir ágætlega til grafargarða eða kirkjugarða, bæði starfar faðir hans sem grafari og „ég hef líka sjálfur alveg tekið eina eða tvær grafir.“ Bókin er þannig séð kannski sjálfsævisögulegri en hún virðist við fyrstu sýn því auk þess að hafa kynnst starfi föður síns af eigin raun dvaldi Brynjólfur oft hjá afa sínum og ömmu að Stafholti þar sem afinn var prestur og skáldið veit af eigin reynslu „að hundasúrur eru bestar í kirkjugörðum,“  eins og fram kemur í einu ljóðanna.  

Þótt ljóðin í ljóðabókinni Sonur grafarans snúist um drauga og margvísleg hindurvitni og sögusviðið sé beinlínis kirkjugarður þá er sannarlega vísað til lífsins í þessari bók. Strax í fyrsta ljóði bókarinnar er bent á mikilvægi þess að hugsa út fyrir gröf og dauða

I
augun
moka holur
í hversdaginn

hann er morandi í járnsmiðum

það boðar víst ógæfu að stíga á þá

hversdagurinn er morandi í ógæfu

augun
moka holur
til að gróðursetja blóm 

„Mér fannst mikilvægt að byrja bókina á einhverju jákvæðu og sem jafnframt vísaði til upphafs, til barnæsku, en bókin byrjar á barnæsku og síðan er lífi sonar grafarans fylgt eftir,“ segir Brynjólfur um að velja einmitt þetta ljóð til byrja bókina. Bókinni lýkur hins vegar á ljóðinu „Evfemía“

EVFEMÍA

hver grefur son grafarans?
ég

veit það ekki

það kemur í ljós
nei

myrkur

skóflu fyrir skóflu
fyrir skóflu

af ilmandi ljúffengri mold

kemur það
í myrkri

Ljóðabókin Sonur grafarans eftir Brynjólf Þorsteinsson er sannarlega ekki öll þar sem hún er séð. Hún er ævisaga, saga um eftirlífið og líka leikrit með fjölda persóna. 

Brynjólfur Þorsteinsson fékk árið  2019 fyrir ljóðið „Gormánuður“. Í kjölfarið sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók Þetta er ekki bílastæði og ári síðar þá næstu Sonur grafarans. Brynjólfur stundar meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands og vinnur nú að prósaverki.

Mynd með færslu
 Mynd: Una útgáfuhús
Sonur grafarans eftir Brynjólf Þorsteinsson