Palestínumenn fengu í dag sextíu þúsund skammta af bóluefni gegn COVID-19 fyrir tilstuðlan Covax, alþjóðlegs samstarfs sem á að tryggja fátækum ríkjum sinn skerf af bóluefnakökunni.
Ástandið er sagt slæmt á herteknu svæðunum vegna faraldursins, sjúkrahús yfirfull og vart byrjað að bólusetja aðra en heilbrigðisstarfsfólk og níutíu þúsund manns sem vinna í Ísrael. Byrjað verður að bólusetja landsmenn á sunnudaginn kemur, heilbrigðisstarfsmenn, fólk sem orðið er 75 ára og eldra og þá sem glíma við langvinna sjúkdóma.
Þriðjungur bóluefnisins sem barst í dag verður sendur til Gazasvæðisins. Gert er ráð fyrir að fyrir tilstuðlan Covax-samstarfsins berist bóluefni til Palestínu sem nægi til að bólusetja eina milljón manns, það er tuttugu prósent íbúanna.
Í sendingunni sem kom í dag eru 37 þúsund skammtar af bóluefni frá Pfizer-BioNTech og 23 þúsund skammtar frá AstraZeneca.