Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægt að börn viti hver systkini þeirra eru

Mynd með færslu
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í suðurkjördæmi.  Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Það er sérstaklega mikilvægt, í jafn litlu samfélagi og Íslandi að börn, sem eru getin með gjafakynfrumum, fái að vita uppruna sinn. Tími er kominn til að breyta lögum í þessa veru. Þetta kemur fram í þingsályktunartillögu sjö þingmanna úr fjórum flokkum um rétt barna til að þekkja uppruna sinn.

Fólk sem gefur kynfrumur velur hvort gjöfin er rekjanleg og sé hún það, ákveða foreldrar barnsins hvort það fær að vita uppruna sinn. Í tillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra leggi frumvarp fyrir Alþingi um að þessu verði breytt. Tillagan var lögð fyrir í október og gekk til velferðarnefndar í nóvember.  Þingmennirnir sjö eru úr Framsóknarflokki, Pírötum,  Flokki fólksins og Samfylkingu.

Fyrsti flutningsmaður er Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, en hún lagði tillöguna nú fram í fimmta sinn.

„Ég veit ekki annað en að umsagnir séu jákvæðar og að áhugi sé hjá nefndinni til þess að fjalla um málið en eins og svo oft áður þá eru ríkisstjórnarmál í forgangi og þau hafa nú verið mörg og stór. Þannig að þetta mál hefur mætt afgangi af góðum og gildum ástæðum,“ segir Silja um framgang tillögunnar.

„Þetta snýst um sjálfstæðan rétt barna til þess að fá upplýsingar um uppruna sinn. Hin Norðurlöndin hafa nú þegar breytt lögum á þann hátt en við höfum setið eftir. Ég veit ekki að hvaða niðurstöðu Alþingi mun komast, en það er allavegana kominn tími til að ræða þetta. 

Silja segir að það hafi verið vakning um þessi málefni, sífellt fleiri gefi og þiggi kynfrumur og þá hafi fjölmiðlaumfjöllun vakið fólk til umhugsunar. Hún segir að það rími ekki vel við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að meina börnum að þekkja uppruna sinn. Þá sé það reynsla annarra þjóða að ekki hafi dregið úr vilja fólks til að gefa kynfrumur þegar lögum um það var breytt. 

Sjá einnig: „Maður spyr ekkert: Ertu til í að gefa mér egg?“

„Í dag gera kynfrumugjafar ráð fyrir því að þeir þurfi mögulega að vera í sambandi við afkomendur sína seinna meir. Og gefa þá kynfrumur á þeim forsendum,“ segir Silja.

Hún segir að opin kynfrumugjöf sé sérstaklega mikilvæg í fámennu samfélagi eins og hér. „Upp á öryggismál; að fólk þekki líffræðilega ættingja sína, sé með upplýsingar um hverjir eru systur þínar og bræður og náfrændur og frænkur. Upp á ákveðið siðferði að gera. Við getum ekki treyst á þessar fjarlægðir sem eru í stærri ríkjum.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir

Tengdar fréttir