Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hætta kennslu í húsnæði Fossvogsskóla eftir helgi

17.03.2021 - 21:57
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Kennsla í Fossvogsskóla verður utandyra á morgun, en nýtt húsnæði verður fundið fyrir skólann um helgina. Foreldrar barna við skólann hafa krafist þess að skólayfirvöld rými húsnæðið vegna myglu og sveppagróa og segja margir að börn sín séu mjög veik eftir að hafa stundað nám í húsinu. Engin kennsla verður á föstudag og á mánudaginn hefst skólastarf svo í öðru húsnæði.

Foreldrar barna í Fossvogsskóla krefjast þess að annað húsnæði verði fundið fyrir skólastarfið á meðan vafi leikur á hvort mygla sé í húsinu. Foreldrum sem tilkynna einkenni hjá börnum sínum fjölgar stöðugt og eru börnin að verða um 40 talsins. 

 

Lagfæringar á húsnæðinu hafa staðið yfir í rúm tvö ár, en foreldrum sem tilkynna einkenni hjá börnum sínum fjölgar stöðugt og eru þau nú orðin um 40 talsins. Gró mælast enn í loftinu en skiptar skoðanir eru um hvort mygla sé til staðar.   

Sjö ára sonur Emilíu Rósar Sigfúsdóttur byrjaði í öðrum bekk í Fossvogsskóla í haust. 
„Hann byrjaði að kasta upp öll föstudagskvöld og laugardagskvöld, það var eins og hann gæti ekki meira eftir skólavikuna,” segir Emilía. „Svo fór að bera á höfuðverkjum, rosalega miklum höfuðverkjum, í kring um áramót og janúar febrúar. Hann verður bara náfölur, kemur bara hvítur heim úr skólanum.”

Þau fóru að fordæmi fleiri foreldra og tóku drenginn úr skólanum í síðustu viku. Hann er hættur í fótbolta, frístund og fer ekki út að leika. Emilía segir að þótt hann glími við aðra líkamlega kvilla, hafi læknirinn hans sagt í síðustu viku að einkennin væru of mikil til að kvillarnir einir geti útskýrt þau. 

Það sást á löngum hitafundi sem var haldinn með foreldrum nú síðdegis að þolinmæðin er á þrotum. Þeir skora á skólayfirvöld að finna börnunum annað húsnæði á meðan vafi leikur á hvort mygla sé enn í skólanum. 

„Sumum er bara ofboðið, sumir eru bara hræddir um börnin sín þótt þau sýni ekki einkenni, og sum eru bara fárveik og búin að vera veik í lengri tíma.”

Skólayfirvöld báðu um svigrúm til að finna pláss fyrir nemendurna 350, það tæki tíma. Spurningunni um hvort það yrði skóli á morgun var ekki svarað, en fram kom að teymisvinna sé hafin, bæði innan Barnaspítala Hringsins, og innan skólans, til að greina og laga vandamálin. Börnum sem hafa  fundið fyrir einkennum verði boðið í rannsókn á spítalanum.