Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fólk hálf örmagna á að búast stöðugt við skjálfta

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Fólk verður hálf örmagna því það er stöðugt í viðbragðsstöðu. Þetta segir sálfræðingur sem spjallaði við Grindvíkinga á íbúafundi í dag. Þá fengu Grindvíkingar sérstaka fræðslu um skjálftariðu, fyrirbæri sem vísindamenn hafa nú fengið kjörið tækifæri til að rannsaka. Þeir óska nú eftir sjálfboðaliðum sem vilja taka þátt í rannsókn á hreyfiveiki.

Verið að hlaða byssurnar? 

Í þrjár vikur hefur jörð á Reykjanesskaga skolfið nær stöðugt og hefur hristingurinn sett mark sitt á bæjarbúa. Í dag hefur skjálftavirknin að vísu verið með minnsta móti og viðkvæðið meðal Grindvíkinga að nú sé verið að hlaða byssurnar, rólegheitin hljóti að vita á einn stóran. 

Í dag var haldinn íbúafundur sem var helgaður áhrifum skjálftanna á andlega og líkamlega heilsu. Svefnvandi var fundargestum ofarlega í huga en þeir töluðu líka um óróleika og spennu. „Það er einhver orka inni í manni, maður er alltaf viðbúinn, það er alltaf eins og maður sé að bíða eftir einhverju,“ segir Óttar G. Birgisson, sálfræðingur og deildarstjóri sálfélagslegrar þjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um viðbrögð fólks við skjálftunum. Það er líkamanum eðlislægt að spennast svona upp en það þreytir fólk til lengdar að vera stöðugt hengt upp á þráð. Svefnleysið gerir svo illt verra. „Fólk verður hálf örmagna og maður heyrir að margir eru orðnir langþreyttir, fólk er ekki endilega hrætt við jarðskjálftana sem slíka, það er bara orðið þreytt á þessu,“ segir Óttar og bætir við að sumir séu auðvitað áhyggjufullir, það sé eðlilegt líka. 

Biðin verri en kinnhesturinn

Óttar líkir þessu ástandi, þar sem fólk er stöðugt viðbúið skjálfta, við senu í bandarískum gamanþætti, How I met your mother. Þar tapaði maður veðmáli og fékk að velja hvort hann yrði sleginn tíu sinnum utan undir strax eða fimm sinnum einhvern tímann á næstu dögum. „Auðvitað valdi hann fimm sinnum en hann var mjög fljótur að átta sig á því að það var verri kostur því bara þessi eftirvænting, að bíða, var oft verra en að vera bara sleginn utan undir.“

Stakar hamfarir tengdar áfallastreituröskun

Það er þekkt að stakar náttúruhamfarir á borð við snjóflóð eða stóra jarðskjálfta geta leitt til áfallastreituröskunar, fólki líður kannski eins og það sé ekki lengur öruggt heima hjá sér, en það er lítið vitað um áhrif svona langvarandi hrinu á líðan fólks til frambúðar. Óttar segir að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja búi sig undir að aðstoða fólk að takast á við andlegar afleiðingarnar umbrotanna seinna, reynist þörf á því.

Vilja fá fólk til að taka þátt í hreyfiveikirannsókn

Líkamleg áhrif skjálftanna hafa heldur ekki verið rannsökuð mikið en skjálftariðan svokallaða hefur svolítið verið í umræðunni.

Sjá einnig: „Það er ekkert að þér, það er þetta sjúka undirlag"

Þegar jörðin undir fótum okkar, sem venjulega er kyrr, fer að ganga í bylgjum þá ruglar það heilann í ríminu. Vísindamenn við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands eru nú að hefja rannsókn á hreyfiveiki í tengslum við jarðskjálftahrinuna á Reykjanesi, í nýju Hreyfiveikisetri HR. Notaður er jarðskjálftahermir og áhrifin á heilabylgjur, vöðvaspennu, hjartslátt og fleira skoðuð. „Þetta er tækifæri til að skilja betur viðbrögð líkamans við hreyfiveiki,“ segir Paolo Gargiulo, prófessor við verkfræðideild HR og forstöðumaður Heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík. Þekkt sé í fræðunum að fólk sem lendir í mjög stórum skjálfta, 8 eða 9 að stærð, finni oft fyrir sjóveikieinkennum, en Gargiulo segir aðstæður á Reykjanesskaga öðruvísi, skjálftarnir minni og hreyfingarnar lengri. Til stendur að skoða áhrif skjálftanna á heilabylgjur, vöðvaspennu, hjartslátt og fleira, kannski verður hægt að meta hvort það sé einhver munur á líkamlegum einkennum skjálftariðu annars vegar og sjóriðu hinsvegar. Hugsanlega hjálpar rannsóknin vísindamönnum að finna meðferð við hreyfiveiki. Þeir leita nú að sjálfboðaliðum af Suðurnesjum, fólki sem finnur fyrir skjálftariðunni, er tilbúið að taka þátt í rannsókninni og stíga upp í jarðskjálftaherminn. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV