Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Einn af hverjum sex ætlar að hætta á þingi

Þingmenn sem ætla að hætta á þingi 2021
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Nú hafa tíu þingmenn, átta karlar og tvær konur, lýst því yfir að þeir hyggist ekki gefa kost á sér til áframhaldandi þingsetu eftir kosingarnar í haust. Meðal þeirra eru níu þingmenn sem leiddu lista fyrir síðustu kosningar, þar af oddvitar þriggja lista í Norðausturkjördæmi og þrír þingmenn af þeim sjö sem Samfylkingin fékk kjörna í síðustu kosningum.

Í dag tilkynnti Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi að hann hygðist ekki gefa ekki kost á sér í flokksvali flokksins í kjördæminu sem haldið verður seinna í mars. Guðjón er eini þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og með brotthvarfi hans losnar því oddvitasæti flokksins í kjördæminu.

Aðrir þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa tilkynnt um að þeir hyggist hverfa af þingi eru Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, sem var í 2. sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu kosningar og Ágúst Ólafur Ágústsson sem leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu kosningum.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tilkynnti um síðustu helgi að hann myndi ekki gefa áfram kost á sér á þing. Kristján Þór leiddi lista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu kosningar. 

Tveir þingmenn Vinstri grænna hafa tilkynnt að þeir gefi ekki áframhaldandi kost á sér; báðir voru þeir oddvitar á listum fyrir síðustu kosningar.  Það eru Ari Trausti Guðmundsson, sem leiddi lista VG í Suðurkjördæmi 2017 og Steingrímur J. Sigfússon sem leiddi lista flokksins í Norðausturkjördæmi. 

Þrír þingmenn Pírata hyggjast hverfa af þingi. Það eru þeir Jón Þór Ólafsson sem leiddi lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, Helgi Hrafn Gunnarsson sem leiddi listann í Reykjavíkurkjördæmi norður og Smári McCarthy sem var oddviti Pírata í Suðurkjördæmi.

Þórunn Egilsdóttir er eini þingmaður Framsóknarflokksins sem hefur tilkynnt um að hún gefi ekki áfram kost á sér. Þórunn leiddi lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi í kosningunum 2017.