Dreymir um safn fyrir íslensk spil

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Dreymir um safn fyrir íslensk spil

17.03.2021 - 08:00

Höfundar

„Það er voða erfitt að fullyrða nokkuð um þjóðina per se, við skulum tala frekar um að vissar ættir séu meira í spilamennsku en aðrar, það kemur dálítið í ljós að þetta er dálítið fjölskyldutengt hvað menn eru að spila mikið. Sumar fjölskyldur koma ekki nálægt neinu meðan aðrar eru síspilandi. Ég hef rakið eina fjölskyldu norður í landi sem hefur spilað líklegast sama spilið í 150 ár," segir þjóðfræðingurinn og spilasafnarinn Tómas V. Albertsson.

Tómas á stærsta safn íslenskra spila sem um getur en hann hefur safnað spilum í um 15-20 ár og vinnur einnig að bók um íslensk spil sem hann segir vera mun fleiri en flesta grunar. Sjálfur á hann um 300 spil og segir Íslendinga hafa verið að spila frá því á víkingaöld. Hann á sér draum um að koma upp safni fyrir spilin þar sem þau eru aðgengileg almenningi.

„Ertu með einhvern draum um hvað er hægt að gera við þessi spil? Já, mig hefði langað að koma upp safni þar sem hægt er að sýna hvað til er af spilum en líka að menn geti leigt eldri spil og spilað á staðnum, væri þá kaffistaður á staðnum með spilaaðstöðu og þá væri hægt að koma upp upplýsingamiðstöð um spil. Það er oft verið að leita upplýsinga um spil og þvíumlíkt. Það væri gaman að geta sett upp þjóðfræðisetur um afþreyingu á Íslandi og haft þá spilamennskuna inn í, það væri svona draumurinn."