Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Baldur siglir á ný á morgun

17.03.2021 - 19:49
Baldur dreginn í höfn af dráttarbátnum Fönix þegar hann varð vélarvana í apríl 2021
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Breiðafjarðarferjan Baldur siglir á morgun. Hún hefur ekki siglt í fimm daga eftir að hún varð aflvana í siglingu á fimmtudag og farþegar voru fastir um borð í 27 klukkustundir. „Það kom í ljós þegar gamla túrbínan var skoðuð að það var galli í öxlinum sem hafði orðið þess valdandi að legurnar í túrbínunni skemmdust. Það er frábært að við skyldum ná að klára þetta á þessum tíma,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða ehf. sem gerir Baldur út.

Sæferðir pöntuðu nýja túrbínu frá Danmörku sem kom til landsins á sunnudag. „Ég fór með hana sjálfur vestur eldsnemma á mánudagsmorgun. Svo var Baldur prófaður um þrjú-leytið í dag og teknar mælingar í kringum túrbínuna, kraftur mældur og vinnsla og slíkt og það kom allt mjög vel út,“ segir Gunnlaugur. „Við siglum klukkan þrjú á morgun,“ bætir hann við.

Hafa margir keypt miða í ferðina á morgun?

„Ég er ekki með töluna á því. Þetta hlýtur að fara rólega af stað bara. Við setjum okkur þrengri mörk hvað siglingar varðar,“ segir hann.

Hvernig þrengri mörk?

„Það er þekkt að útgerðir hafa lista yfir þætti sem stoppa ferjuna, til dæmis of mikill vindur eða straumur. Þarna gætum við þurft að ganga lengra en við höfum gert. Og skipstjóri hefur alltaf heimild til að fella niður ferð ef þeir telja að öryggi sé ekki fullkomlega tryggt. En tíminn leiðir það í ljós,“ segir Gunnlaugur en bætir við að fólkið um borð hafi ekki verið í neinni hættu, þótt aðstæðurnar hafi verið óþægilegar.

Sæferðir endurgreiddu fargjöld farþeganna sem voru um borð í 27 tíma á fimmtudag og föstudag. Fólkinu var einnig boðin gisting á hóteli í Stykkishólmi og sigling með minni ferju Sæferða. 

Hafiði fengið margar kvartanir eftir þetta eða kröfur um bætur?

„Ekki eitt einasta símtal sem snýr að því. Ég hef ekki heyrt af einu einasta tilviki. Við buðum upp á áfallahjálp, Rauði krossinn var í startholunum en það var blásið af því enginn þáði það. En ef einhver vill það eftir á þá er það enn í boði. Það var mjög fallegt að sjá hvað fólk sýndi þessu mikinn skilning og var ánægt með okkar starfsfólk um borð, það á hrós skilið“ segir Gunnlaugur.