Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrjú smit í seinni skimun: Mikilvægt að virða sóttkví

16.03.2021 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Tuttugu og sex virk smit hafa greinst á landamærunum það sem af er mars. Þrír greindust með virk smit í seinni landamæraskimun í gær, og höfðu því ekki greinst í fyrri sýnatöku. Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna, segir að það sýni hversu mikilvægt sé að fólk virði sóttkví við komuna til landsins og að aðstandendur þeirra sem eru nýkomnir til landsins umgangist þá ekkert fyrr en að lokinni sóttkví og seinni skimun.

„Það er alltaf þessi möguleiki að það geti breiðst út frá því. Ef fólk er ekki að passa sig. Og fólk áttar sig oft ekki á því, þú fert í PCR-próf úti og svo ferðu í sýnatöku daginn sem þú lendir hér. Ef það er neikvætt þá hugsar fólk kannski að líkurnar séu litlar, en svo greinist það í seinni skimun. Flest þau innanlandssmit sem hafa komið frá áramótum eru tengd landamærasmiti og það hefur verið talsverð umræða um að fólk eigi ekki að sækja á flugvöllinn. Þetta er þessi veiki hlekkur, að fólk sé að umgangast fólk sem er nýkomið að utan,“ segir hann. 

Einn greindist með COVID-19 innanlands í gær og sá var í sóttkví. Þetta er áttunda kórónuveirusmitið sem greinist innanlands í mars. Jóhann Björn segir að rakningateyminu hafi tekist að rekja öll smitin og komast að uppruna þeirra. Hann segir það mikla mildi að smitin sem greindust utan sóttkvíar í síðustu viku hafi ekki breiðst út meira en raun ber vitni.

„En það skýrist af þessu, að fólk sé að fara varlega og gæti að einstaklingsbundnum smitvörnum. Og að fólk fari snemma í sýnatöku og að það fari í sýnatöku. Ég held að það skipti rosalega miklu máli að fólk sé að greinast þetta snemma,“ segir hann.