Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Óljósar tengingar heildar og hluta

Mynd: - / Listasafn Reykjanesbæjar

Óljósar tengingar heildar og hluta

16.03.2021 - 14:11

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir tók áhættuna og keyrði út á Reykjanesskaga til að sjá sýninguna Á og í ; sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjanesbæjar. Þrír listamenn gera ný verk fyrir sýninguna sem römmuð er inn á áhugaverðan hátt, þótt tengingar milli heildar og hluta séu ekki alltaf augljósar.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Það var á hlýjum og mjúkum degi um nýliðna helgi sem ég lagði leið mína til Keflavíkur. Það var engu líkara en að vorið hefði þjófstartað þennan dag, sjórinn lygn og golan hlý, og ég mundi skyndilega að árstíðirnar koma víst ekki endilega í línulegri röð í þessu landi. Þetta var stund milli stríða, sagði eldgosavaktin, og ég þurfti á því að halda að komast út úr borginni, fara í góðan bíltúr eftir mikla inniveru undanfarið. Ég var á leiðinni að sjá sýninguna Á og í ; sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjanesbæjar. Ég  var spennt að sjá sýningu sem er unnin út frá sjónarhóli líkamans, sýningu sem „hverfist um þann skala sem líkaminn tekst á við daglega“, eins og segir í kynningartexta.

Líkamleiki og efnisleiki er einmitt eitthvað sem er ofarlega á baugi um þessar mundir. Þessa dagana fylgjumst við öll af ákefð með fýsísku yfirborði jarðar, fjöllum og sprungum og hreyfingum jarðskorpunnar. Og þessi fyrirbæri urðu einmitt að einhverju allt öðru en því sem ég skynja þau venjulega, þar sem ég keyrði Reykjanesbrautina í þetta sinn. Hér var hið kunnuglega landslag, sem venjulega líður áreynslulaust hjá, orðið að líkamlegum fyrirbærum, lifandi og sveigjanlegum, lífrænum verum sem hreyfast og dansa undir yfirborðinu. Ég nikkaði yfir til Keilis þar sem ég brunaði áfram út nesið og setti mig í stellingar fyrir það sem ég átti í vændum. Þessi upplifun mín þarna á leiðinni var ekki einungis lituð af skilaboðum innan úr iðrum jarðar, heldur einnig fyrir fram gefnum væntingum mínum til sýningarinnar, sem hefur sjónarhól hins líkamlega í forgrunni.

Sýningin Á og í ; samanstendur af nýjum verkum þriggja listakvenna sem allar hafa gert ný verk fyrir sali Listasafns Reykjanesbæjar af þessu tilefni. Þetta eru myndlistarmennirnir Björk Guðnadóttir og Helga Páley Friðþjófsdóttir, og dansarinn Yelena Arakelow, sem vinnur á mörkum myndlistar og sviðslistar. Þær tilheyra hver sinni kynslóð, sú elsta fædd 1969 og sú yngsta 1993.

Sýningin hreiðrar um sig í tveimur stórum sýningarsölum safnsins. Annar þeirra hefur nýlega verið tekinn undir listastarfsemi, hinn svokallaði „bátasalur“, sem áður hýsti mikið og forvitnilegt safn bátalíkana og hefur nú verið fært til innan Byggðasafns Reykjanesbæjar. En bæði söfnin, listasafnið og byggðasafnið, eru starfrækt undir sama þaki í nafni Duus safnahúss í enda bæjarins. Við þessa útvíkkun listasafnsins rúmlega tvöfaldast rými þess og er til marks um nýjan tón og metnaðarfulla sýn nýs safnstjóra, Helgu Þórsdóttur, um að gera safnið að einu því framsæknasta á sviði samtímalistar hér á landi. Um leið fylgir því mikil áskorun fyrir listamenn að valda svo stóru rými. Helga er einnig sýningarstjóri sýningarinnar Á og í ; og hún rammar hana inn með vísunum í feminíska heimspekinginn Rosi Braidotti í sýningarskrá sem hægt er að sækja sér gegnum QR-kóða á staðnum. Braidotti er þekkt fyrir að fjalla um líkamann út frá gagnrýninni feminískri hugsun, með áherslu á þau utanaðkomandi öfl sem móta sjálfsveruna í tengslum við líkamann og hið félagslegspólitíska umhverfi sem hann er hluti af.  

Ég verð að viðurkenna að ég átti dálitlum vandræðum með að tengja verkin við þessa innrömmun sýningarinnar í heild, en hér hefði hjálpað að fá einhvers konar leiðarvísi um verk listamannanna í samhengi við þann heimspekilega ramma sem settur er fram í sýningarstjórnunarlegu ávarpi. Augljóstasta tengingin fannst mér þó við verk Yelenu, en hún vinnur auðvitað á beinskeyttan hátt með líkamann og rými sem sviðlistamaður og dansari. Fyrir utan lifandi gjörninga sem hún flytur reglulega á sýningartímanum hefur hún heilan sal til umráða fyrir vídjóverk og innsetningar, sem unnin eru úr límböndum, textabrotum og vörpunum. Þótt heldur rúmt sé um verk Yelenu í þessum stóra sal, skapa þau áhugaverða farvegi fyrir vangaveltur um hreyfingu og samspil líkamans við rými, auk þess sem hún vinnur með línur, bil og þagnir á vel útfærðan hátt. Límbönd afmarka rýmið ýmist með línum á gólfi eða á veggjum og stundum hvoru tveggja á ská, og tengja þannig hið lóðrétta og hið lárétta í eina samhangandi heild. Gafferteip hangir laust í annan endann neðan úr lofti, og rúllast niður í ofurhægri hreyfingu og vindur þannig ofan af sjálfu sér fyrir tilstuðlan þyngdakraftsins. Mér var sagt að þessi hreyfing hefði tekið á sig óvænta kippi undanfarið.   

Í hinum salnum, gamla bátasalnum, raðast verk Bjarkar og Helgu Páleyjar á víða veggina og inn á stóran gólfflötinn. Ég upplifði verk þessara tveggja listamanna sem afar ólík, og átti stundum erfitt með að tengja þær saman inn í sýningarkonseptið sjálft. Verk Helgu Páleyjar, sem einkennast af dökklituðum málverkum, varpa upp sviðsmyndum af ýmiss konar daglegum athöfnum og hversdagslegum viðburðum, oft með örlítið súrrealískum blæ eða húmor. Þessir dökku fletir Helgu Páleyjar mynda sterka andstæðu við mjúka pastelliti í gifsverkum Bjarkar, og stillans með verkum Helgu Páleyjar fremst í salnum kallaðist skemmtilega á við innsetningu Bjarkar innst inni í hinum endanum. Í þessum sal var reyndar dálítið ruglingslegt að finna út úr hvaða verk tilheyrði hvaða listamanni, en eftir hjálp safnvarðar tókst mér að lesa saman númeringar á gólfplani og titla verkanna sjálfra á útprentuðum blöðum.

Björk vinnur hér með sjóndeildarhringinn og láréttu línuna, bæði í fínlegum og mjúkum hnattlaga gifsverkum sem og í umfangsmikilli innsetningu sem hún kallar „Hlið - sjónlína“. Innsetninguna vinnur hún úr fundnu efni, meðal annars tjaldsúlum og tjaldtextíl, sem hún notar af mikilli næmni til að teikna línur inn í rýmið. Það er helst í láréttu línunni sem salirnir tveir tengjast, Björk með sjóndeildarhringinn og þá gjörð að horfa til hliðar, meðan Yelena gerir tilraunir með hliðarhreyfingar í verki sínu Moving Sideways. Þess utan upplifði ég salina tvo fremur eins og tvær aðskildar sýningar, og stundum áttaði ég mig illa á tengingunum milli listamannanna og sýningarkonseptsins í heild.

En þrátt fyrir þetta tengslaleysi, sem ég upplifði milli sýningarstjórnunarlegs ávarps annars vegar og verkanna hins vegar, standa verk hvers listamanns auðvitað vel fyrir sínu. Tengingarnar eru þarna eflaust einhvers staðar þótt mér hafi ekki tekist að koma auga á þær, en í öllu falli hefði verið gott að fá betri innleiðingu sýningarstórans inn í verk hvers listamanns fyrir sig, hjálp við að setja í samhengi og krækjur til að tengja þau betur við heimspekilegt konsept sýningarinnar í heild.

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Aðdráttarafl hins framandi

Pistlar

Í anda Nýló

Pistlar

Tengsl áþreifanlegs og óáþreifanlegs menningararfs

Pistlar

Raunveruleiki og sviðsetning í Listasafninu á Akureyri