Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kosið um sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu 5. júní

16.03.2021 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður K. Þórisson
Áformað er að kjósa um sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu þann fimmta júní. Þessi sveitarfélög starfa nú þegar náið saman og formaður sameiningarnefndar telur ekki ýkja flókið að ganga alla

Unnið hefur verið að mögulegri sameiningu í Austur-Húnavatnssýslu frá 2017. Þetta eru Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og sveitarfélagið Skagaströnd.

Verði að tryggja sömu þjónustu óháð búsetu

Á tveimur íbúafundum sem nú hafa verið haldnir hafa komið fram svipuð sjónarmið og á mörgum dreifbýlum landsvæðum; að tryggja öllum íbúum sömu þjónustu óháð búsetu. „Við erum náttúrulega að sameina þéttbýli og dreifbýli þannig að það er eðlilega það sem kemur upp í hugann, sérstaklega í dreifbýlinu, að menn haldi sömu þjónustu og aðrir íbúar,“ segir Jón Gíslason, formaður samstarfsnefndar um sameiningu.

Skólastarf á Húnavöllum leggist af á næstu árum

Eitt af því sem mikið er rætt á meðal íbúa þessarra sveitarfélaga er tillaga um að sameina starfsemi grunnskóla á Húnavöllum og á Blönduósi. Sú tillaga gerir ráð fyrir því að grunnskólastarf á Húnavöllum leggist af innan fárra ára. „Hugmyndafræðin er að sameina reksturinn eftir að nýtt sveitarfélag tekur til starfa og starfi kannski óbreytt í tvö til þrjú ár“ segir Jón og þegar sé hafin vinna við að finna Húnavöllum og þeim byggingum sem þar eru nýtt hlutverk.

Stjórnsýslan verði bæði á Skagaströnd og Blönduósi

Nokkuð var tekist á um hvar stjórnsýslan í nýju sveitarfélagi eigi að vera og á endanum var lagt til að henni verði skipt á milli Blönduóss og Skagstrandar.  „Auðvitað er það alltaf svo að ný sveitarstjórn ræður þegar hún tekur til starfa. En við leggjum þetta svona upp, við sem erum að vinna í þessu núna,“ segir hann.

Mikil samvinna og því ekki stórt skref að sameina

Endanleg tillaga um sameiningu er nú á leið til samþykktar í öllum sveitarstjórnum og kynningarferli fram undan í apríl og maí. Stefnt er að kosningu um sameiningu fimmta júní. Jón segir að samstarf þessara sveitarfélaga sé mikið þannig að eiginleg sameining ætti ekki að vera flókin. „Auðvitað erum við ekki að stíga neitt stórt skref í því vegna þess að við erum búin að vera með byggðasamlög um fjölmarga þætti núna í langan tíma. Þannig að það má segja að þetta sé ekkert stórt skref að gera þetta að einni stjórnsýslueiningu.“