Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klámfengin þeysireið

Mynd: Last kvöldmáltíð / Tjarnarbíó

Klámfengin þeysireið

16.03.2021 - 20:00

Höfundar

The Last Kvöldmáltíð er nýtt íslenskt leikverk eftir Kolfinnu Nikulásdóttur í leikstjórn Önnu Maríu Tómasdóttur. Verkið er ekki fyrir viðkvæma, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Velkomin í síðasta brúðkaup, slash, fríksjóv í heimi, slash rass. Við erum fjölskylda, slash, sirkus, slash, rass. Þetta er heimili okkar, slash, sundhöll, slash, rass.

Nokkurn veginn svona mætti taka saman í stuttu máli sögusvið og söguþráð The Last Kvöldmáltíð sem frumsýnt var í Tjarnarbíói síðasta fimmtudag. Leikritið, sem sett er upp af leikhópnum Hamfarir, segir frá mjög brotinni fjölskyldu, svo brotinni að það liggur við að hægt væri að segja úrkynjaðri fjölskyldu. Hún samanstendur af Beikon, leiknum af Ólafi Ásgeirssyni, Ló, systur hán, sem leikin er af Ásthildi Úu Sigurðardóttur, en yfir þessari litlu fjölskyldu drottnar Mamman, leikin af Helgu Brögu Jónsdóttur. Þeim til samlætis í þessum plastaða veruleika eru tveir karlar, faðirinn sem liggur í dái með vökva í æð, sem Ragnar Ísleifur Bragason túlkar fínlega, og Hreinn, sem leikinn er af Albert Halldórssyni. Hreinn er læstur inni í búri eins og hættulegt dýr, en þau eru þó öll innilokuð og föst því fjölskylda þessi býr í gamalli, yfirgefinni sundhöll og lifir á dósamat. Í raun virðist sundhöllin þjóna svipuðu hlutverki og neðanjarðarbyrgi eftir kjarnorkustyrjöld því fyrir utan hana er hættulegur heimur eða jafnvel ekki neitt.

Eins og áður sagði er leikritið er sett upp af leikhópnum Hamfarir, í leikstjórn Önnu Maríu Tómasdóttur, en er eftir Kolfinnu Nikulásdóttur. Kolfinna hefur getið sér ágætis orðs sem tónlistarmaður, og hefur komið að hljómsveitunum Reykjavíkurdætur, Amabadama og Retro Stefson, en leikritið The Last Kvöldmáltíð byggist á útskrifarverkefni hennar af Sviðshöfundabraut Listaháskólans frá árinu 2016.

Sýningin hefst á því að Beikon klagar systur sína Ló fyrir það að sofa hjá föður þeirra sem liggur meðvitundarlaus inn á sviðinu, refsingin sem Mamma velur felst í tveimur skemmtiatriðum á 17. júní-hátíð sundhallarinnar. Beikon virðist vera yngra systkinið sem stöðugt klagar hið eldra og flýr svo í faðm móður sinnar sem sífellt hampar háni á kostnað Ló. Það er þó ekki nóg fyrir Mömmu, heldur vill hún að börnin sín sofi saman, nokkuð sem Beikon fúlsar við því hán vill, eins og hán orðar það „reproduce með fólkinu að utan“.

Tungutakið í leikritinu er allsérstakt, og gæti verið erfitt að miðla því í útvarpspistli á Rás 1, þar sem málfarið er mjög enskuskotið og þar að auki frekar gróft. Svo gróft að jafnvel persónur í leikverki eftir Tyrfing Tyrfingsson myndu roðna og líta undan. Segja mætti að leikritið sé í anda in your face-bylgjunnar sem kom frá Bretlandi á tíunda áratugnum, því stundum virðist eins og annarri hverri línu sé ætlað að stuða áhorfandann og hrista upp í honum. Þar að auki er býsna gróft kynferðisofbeldi í verkinu og það gæti vel farið fyrir brjóstið á einhverjum áhorfendum ef orðbragðið gerir það ekki. Það getur orðið þreytandi þegar listamenn rembast við að hneyksla áhorfendur, og tekst iðulega ekki, en textinn í The Last Kvöldmáltíð flæðir engu að síður náttúrulega, eins og vel ort kvæði. Í leikritinu eru margar eftirminnilegar línur, klámfengnar og enskuskotnar, en bæði sletturnar á dönsku og ensku virkuðu vel og gerðu verkið að mörgu leyti mjög frískandi. Það er líka fast skotið á þjóðrembu, þjóðernishyggju og hreintungusinna í verkinu, og það heyrast línur eins og „Bessastaðir was an hospital for people with dick problem,“ eða Bessastaðir voru spítali fyrir fólk með risvandamál, og já, ég verð að bæta við að enskan er oft á tíðum málfræðilega röng, ef það var ekki nógu stuðandi að bara sletta henni.

Án þess að vilja gefa upp of mikið um söguþráð verksins þá verður Beikon sífellt ósáttari við hlutskipti sitt, hán finnur sig ekki í upprunalegu hlutverki sínu sem karlmaður og vill ekki gangast undir reglur fjölskyldunnar sem felast í alræði Mömmu, sifjaspelli og klámfenginni hegðun. Hann þráir að vera með Hrein, sem virðist ekki endurgjalda tilfinningarnar heldur vill einungis nota Beikon til að þiggja munnmök.

Þar sem aðstæður eru mjög absúrd væri freistandi að líta á sundhöllina sem einhvers konar líkingu við íslenska þjóðarheimilið. Þau eru föst á lítilli einangraðri eyju, sifjaspell er vandamál og þau vilja ekki taka við flóttafólki að utan, og fagna 17. júní, en skilja ekki alveg hvers vegna heldur skála bara fyrir eyjunni gömlu, gröðu með sinn eilífðar semíbóner. Undir lok verksins kaus Kolfinna þó að snúa gagnrýninni að kynjakerfinu eða feðraveldinu á frekar klisjukenndan og klunnalegan hátt. Það var svolítið eins og leikskáldið missti trúna á að áhorfandinn gæti lesið á milli línanna og skilið verkið án þess að það væri stafað ofan í hann. Því miður var síðasti þriðjungur verksins ekki eins sterkur og þeir fyrri, því ef svo væri þá væri leikritið firnasterkt. Þó má alveg segja að það sé bæði frumlegt og djarft, með einkennandi stíl og athyglisverðar persónur.

Frammistaða leikara var mjög góð í verkinu. Helga Braga var stórfengleg í hlutverki Mömmu slash sirkússtjóra slash rass. Ásthildur Úa Sigurðardóttir var mjög öflug í sínu hlutverki, ég hef ekki, svo ég muni, séð hana áður á sviði, sem er ekki mjög sérkennilegt miðað við að hún útskrifaðist 2019 og leikhúsin voru lokuð mestallt árið 2020, en ég hlakka til að sjá meira af þessari mjög efnilegu leikkonu á næstunni. Ólafur og Albert hafa verið mjög áberandi og duglegir í sjálfstæðu senunni síðastliðin ár og stóðu sig ágætlega í verkinu. Við mætti bæta að persóna Ólafs, hán Beikon, sem í upphafi verks er ráðvilltur kynsegin drengur og er í lok verks búin að skilgreina sig á allt annan máta, er frekar athyglisverð persóna í leiklistarsögulegum skilningi. Það eru ekki mörg hán í sögu íslenskrar leikritunar, það getur verið að Hans Blær, leikrit Eiríks Örn Norðdahls sett upp árið 2018 sé fyrsta trans persóna í íslensku leikhúsi, sem gerir Beikon hugsanlega að hán númer tvö, en auðvitað má alveg deila um tímasetningar í ljósi þess að leikritið byggist á útskriftarverkefni frá árinu 2016.

Beikon og Hans Blær segja ekki endilega eitthvað um afstöðu samfélagsins til transfólks. Flestar persónur sem rata á svið hafa tilhneigingu til að vera brotnar og andstyggilegar, og ekki ætlað að vera góðar fyrirmyndir. Sölumaður deyr, svo dæmi sé nefnt um annað verk sem nú er á fjölunum, er til dæmis ekki fögur lýsing á karlmennskuímynd gagnkynhneigðra karlmanna. En þó má nefna að það hefur engin trans persóna sést á íslensku sviði sem ekki á einhvern hátt virðist ætlað að stuða eða hneyksla, og það væri auðvitað spennandi að sjá í einhverju öðru leikriti aðeins venjulegri trans einstakling. Beikon er vissulega ekki algert skrímsli, mun viðkunnanlegri en Hans Blær, en hán er hins vegar ekki neitt í líkingu við heilsteypta manneskju frekar en nokkur önnur persóna í The Last Kvöldmáltíð. Líkt og flestir aðrir í verkinu er Beikon ofbeldisfull manneskja með veruleg sálræn vandamál.

Sviðsmyndin eftir Brynju Björnsdóttur var vel heppnuð, fallega symmetrísk fyrir augað og á sama tíma tilkomumikil, sér í lagi plastljósakrónan. Búningar Brynju Skjaldardóttur voru einnig vel heppnaðir, húmorískir en þó mögulega ekki eins djarfir og leikritið gæti hafa gefið tilefni til. Tónskáldið Salka bjó til tónlist sem hreif með en stal ekki athygli, og Önnu Maríu Tómasdóttur mætti hrósa fyrir að hafa fengið frábæra frammistöðu út úr öllum leikurum á sviðinu, en gagnrýna fyrir að leggja ekki til að verkið væri örlítið stytt undir lokin, sér í lagi þeir kaflar þar sem mest er æpt á sviðinu. Ég fer að hljóma eins og biluð plata í gagnrýni minni, The Last Kvöldmáltíð gerist vissulega í framtíðinni, í einhvers konar byrgi eftir miklar hamfarir, en er engu að síður stofudrama og í stofudrama, sama hversu langt það er, er einungis pláss fyrir tvö til þrjú öskur áður þau fara að verða leiðigjörn.

Að því sögðu þá er The Last Kvöldmáltíð spennandi leikrit sem mætti skoða út frá mörgum vinklum. Allir leikarar stóðu sig vel og umgjörð var til prýði. Sýningin er ekki fyrir viðkvæma, því fyrir utan óheflað orðbragð er sviðsett gróft kynferðisofbeldi, en fyrir þá sem vilja láta hreyfa við sér og upplifa sterka, klámfengna þeysireið í óvæntar áttir er hiklaust hægt að mæla með kvöldmáltíðinni.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Lifðu af hamfarir og halda partí