Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bretar sagðir ætla að stækka kjarnavopnabúr sitt

16.03.2021 - 04:43
epa05879120 Britain's Brexit Secretary David Davis departs the House of Commons in London, Britain, 30 March 2017. Davis announced the Great Repeal Bill to MP's at parliament on 30 March. The UK Government has published a whole range proposed
 Mynd: EPA
Bretar eru sagðir ætla að stækka kjarnavopnabúr sitt um 40% á næstu fimm árum. Að sögn bresku fjölmiðlanna Guardian og Sun ætlar ríkið að fjölga kjarnaoddum úr 180 í 260 fyrir miðjan þennan áratug. Þetta er sagt meðal áforma í endurskoðaðri öryggis-, varnarmála og utanríkisáætlun ríkisins sem Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, kynnir í dag.

Blöðin segja bæði að áætluninni hafi verið lekið til þeirra. Hún verður lögð fyrir breska þingið síðar í dag. Forsætisráðuneytið segir skýrsluna þá ítarlegustu um utanríkis- og öryggismál sem gefin hefur verið út í Bretlandi í áratugi. 

Samkvæmt miðlunum er sagt að virk ógn stafi af Rússlandi, en meiri áskorun sé fólgin í deilum við Kínverja. Bretar hafa ítrekað gagnrýnt bæði Rússa og Kínverja fyrir njósnir, netárásir og mannréttindabrot. Samskipti Breta og Kínverja hafa stirðnað hratt undanfarna mánuði vegna hertra taka kínverskra stjórnvalda á fyrrum nýlendu Breta í Hong Kong.

Leita lengra en til ESB

Áætlunin er liður í nýrri stefnu Bretlands eftir útgönguna úr Evrópusambandinu, Brexit. AFP segir Breta vilja líta lengra en til Evrópusambandsríkja, og líta þeir sérstaklega hýru auga til Kyrrahafsríkja Asíu og Indlands. Þeir hafa þegar sóst eftir aðild að ASEAN, samtökum ríkja í Suðaustur-Asíu. 

Varðandi öryggis- og varnarmál er fjallað um mikilvægi tæknivæðingar breska hersins. Eins verður kastljósinu beint að geimnum og netinu, auk þess sem stefnt er að því að bæta viðbragð Breta við utanaðkomandi ógn með því að setja upp svipaða aðstöðu og í stöðuherbergi Hvíta hússins.

Áætlunin er sögð svar Breta við breyttum heimi þar sem ríkið geti ekki einvörðungu treyst á úrelt alþjóðakerfi. Þó er lagt áherslu á áframhaldandi mikilvægi bandalaga á borð við NATO. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV