Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Berklasmit á Hrafnistu í Reykjanesbæ

16.03.2021 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Berklar greindust hjá starfsmanni Nesvalla, hjúkrunarheimilis Hrafnistu í Keflavík í seinustu viku. Starfsfólk var sent í skoðun og voru einhverjir úr þeirra hópi með jákvætt sýni, en ekki liggur fyrir hvort þeir séu með virkt smit.

Þetta herma heimildir Fréttablaðsins, sem greinir fyrst frá málinu. Að sögn Þuríðar Ingibjargar Elísdóttur, forstöðumanns Nesvalla er málið í vinnslu og von á yfirlýsingu frá heimilinu vegna smitsins.  Greint verður frá efni hennar þegar hún berst.

Nesvellir, 60 herbergja hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ, voru teknir í notkun árið 2014. Byggingarkostnaður var einn og hálfur milljarður króna. Hrafnista rekur heimilið en Reykjanesbær byggði það. Um leið og Nesvellir opnuðu var hjúkrunarheimilinu Garðvangi lokað.

Árlega greinast um tíu manns með berklaveiki hér á landi og ekki hefur þótt ástæða til að taka bólusetningu gegn berklum inn í almennar bólusetningar. Í fyrra kom upp grunur um berklasmit á einni deild leikskóla á Seltjarnarnesi. 

Berklar voru þjóðarmein í upphafi 20. aldar. Árið 1927 var berklahæli reist að Kristnesi í Eyjafirði. Hælið varð örlagavaldur í lífi fólks, griðastaður og heimili, en einnig afplánun og endastöð. RÚV gerði nýverið útvarpsþætti um berklahælið á Kristnesi. Á þá má hlýða hér.