Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Baldur bilaði vegna gamallar viðgerðar á túrbínu

Baldur dreginn í höfn af dráttarbátnum Fönix þegar hann varð vélarvana í apríl 2021
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Gert er ráð fyrir að Breiðafjarðarferjan Baldur sigli á ný á morgun. Verið er að tryggja að ný túrbína sem fengin var um helgina sé í lagi. Samgönguráðherra fundar nú með sveitarfélögum um Baldur.

Bilunina í Baldri má nokkuð örugglega rekja til gamallar viðgerðar á túrbínu í vél ferjunnar. Hún var sett í Baldur þegar hann bilaði í fyrrasumar. Gunnlaugur Grettisson framkvæmdastjóri Sæferða, sem gera Baldur út, segir að farið verði sérstaklega yfir nýju túrbínuna sem kom til landsins á sunnudag.

„Hún er því komin í skoðun, það er að segja nýja túrbínan er komin í skoðun, einnig var kallað eftir nánari upplýsingum frá söluaðila erlendis um hennar fortíð og allt slíkt til að vera algjörlega með þetta á hreinu. ”

Stefna á að Baldur sigli á morgun

Engin ferja siglir á milli Stykkishólms og Brjánslækjar í Baldurs stað. Særún, sem er minni ferja og tekur ekki skip, siglir til Flateyjar ef þörf er á. Lagt var upp með að Baldur myndi hefja siglingar á ný á morgun og Gunnlaugur segir að enn sé miðað við það.

„En við vitum svona meira þegar fer að líða á þennan dag, hvernig staðan er á þessari nýju túrbínu, og vonandi er hún í lagi og þá mun hún bara fara aftur vestur og um borð í skipið og menn geta hafið lokafrágang.”

Fundað um Baldur í hádeginu

Núna í hádeginu halda samgönguráðherra og vegamálastjóri fund með fulltrúum sveitarfélaga beggja vegna Breiðafjarðar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu ætla sveitarfélögin að inna sérstaklega eftir því hvaða vinna fari nú fram af hálfu stjórnvalda til að tryggja nýja ferju á Breiðafjörð og hvenær hennar megi vænta.