Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ákvörðun um litakóðunarkerfi ekki í samráði við Þórólf

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ákvörðun stjórnvalda um að taka upp litakóðunarkerfi á landamærunum 1. maí er ekki tekin í samráði við sóttvarnalækni. „Nei, þetta er ákvörðun stjórnvalda að gera þetta svona og þau stefna að því að þetta sé gert á þennan máta,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við fréttastofu. „Þetta er klárlega viljayfirlýsing stjórnvalda og þau náttúrulega ráða þessu endanlega,“ bætir hann við.

Litakóðunarkerfið byggist á því að misstrangar reglur gildi um komufarþega eftir því hver staða faraldursins er í því ríki sem þeir koma frá. Sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda hafa hingað til að mjög miklu leyti tekið mið af tillögum Þórólfs en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í Kastljósi í gær að ríkisstjórnin væri ákveðin í að litakóðunarkerfið tæki gildi 1. maí.

Viljayfirlýsing stjórnvalda

„Það er í sjálfu sér bara skiljanlegt að stjórnvöld vilji hafa fyrirsjáanleika fyrir aðila um það hvernig þetta verði,“ segir Þórólfur sem gerir ráð fyrir að leggja fram sínar tillögur um landamæraaðgerðir þegar þar að kemur. „Í mínum huga er ég nú mest að hugsa um sóttvarnahliðina og áhættuna þannig að ég geri ráð fyrir að ég þurfi að koma með tillögur til ráðherra sem stjórnvöld þurfa að taka ákvörðun um hvort þau taka tillit til eða ekki. Ég er ekki farinn að móta skoðun á því hvernig mér fyndist þetta ætti að vera. Það er dálítið langt í það og það á margt eftir að koma í ljós með faraldurinn innanlands og erlendis,“ segir hann. 

Sérðu þetta sem stefnubreytingu stjórnvalda? Að lýsa yfir áformum um sóttvarnareglur langt fram í tímann án samráðs við þig?

„Nei, ekki endilega, það er langt síðan ég kallaði eftir því að stjórnvöld kæmu meira inn í ákvörðunartöku og stýringu á þessu. Þetta er vafalaust bara ein hliðin á því svo að ég hef engar athugasemdir við það,“ segir hann. 

Tilslakanir á landamærunum geta kostað aðgerðir innanlands

Þórólfur hefur sagt að strangar aðgerðir á landamærum séu forsenda tilslakana innanlands. Því megi forðast strangar samkomutakmarkanir ef tekst að koma í veg fyrir að smit berist inn í landið. 

En í þínum huga, eru það miklar tilslakanir sem felast í því að taka upp litakóðunarkerfi?

„Það er ákveðin tilslökun en ef við skoðum stöðuna í Evrópu núna myndu öll lönd í Evrópu vera á rauðum lista. Þá myndi þetta fyrirkomulag, skimanakerfið, vera óbreytt. En svo ef ástandið fer að lagast í Evrópu eða öðrum löndum, eins og við vonum, gæti þetta breyst. En auðvitað er á einhverjum tímapunkti sem landið þarf að opna meira, þegar er búið að koma upp meira ónæmi í samfélaginu. En það er alltaf spurning hvenær og hvernig það verður gert,“ segir hann.

Ef þetta gengur eftir, telurðu það geta aukið hættuna á að smit berist inn í landið og þannig aukið líkurnar á að það þurfi að herða aðgerðir innanlands?

„Það er bara ómögulegt að segja. Við vitum ekkert hvernig staðan verður þá, hvorki á stöðu bólusetninga, nýjum afbriðgum, eða hvernig staðan verður á faraldrinum almennt. Það eru mjög margir óvissuþættir sem hindra að maður geti sagt eitthvað ákveðið um það,“ segir Þórólfur.

Sóttvarnir eftir bólusetningar

Eftir því sem líður á vorið eru sífellt fleiri viðkvæmir hópar bólusettir, heldurðu að þín stefna í sóttvörnum breytist við það? Verður lögð minni áhersla á að halda útbreiðslunni í skefjum vegna þess að viðkvæmustu hóparnir verða verndaðir?

„Það fer eftir því hvernig staðan verður. Við erum að fá ný afbrigði af veirunni sem hegða sér öðruvísi, bæði meira smitandi og hugsanlega að valda meiri einkennum hjá yngra fólki. Við erum að fá fréttir frá Noregi af fleiri innlögnum hjá yngra fólki. Þannig að það eru ýmsir svona þættir sem við vitum ekki hvernig verða og ég þori ekki að spá um það. En það getur vel verið að faraldurinn og afbrigðin eigi eftir að taka slíkum breytingum og maður verður að aðlaga skoðanir sínar að því svolítið,“ svarar Þórólfur.

„Við vitum hverjir áhættuhóparnir eru en það þýðir ekki að yngra fólk geti ekki veikst alvarlega og fengið slæm eftirköst. En það fær það síður en eldri einstaklingar. Það er það sem hefur stýrt forgangsröðun í bólusetningu. En á einhverjum tímapunkti þarf að slaka á og opna meira en það þarf að gera hægt og hafa að leiðarljósi ákveðnar staðreyndir í þessum faraldri, maður veit ekki hvernig hann verður eftir nokkra mánuði,“ bætir hann við.

En munuð þið taka jafnalvarlega smitrakningu og reglur um persónulegar sóttvarnir, þótt það verði búið að vernda viðkvæmustu hópana?

„Ég held við höldum því áfram. Það er heldur aldrei þannig að við náum 100 prósent þátttöku í bólusetningu. Það geta verið viðkvæmir hópar eftir sem þarf að vernda. En auðvitað er langtímamarkmiðið að við getum slakað á og lifað með þessari veiru þannig að við þurfum ekki að vera með allt í gjörgæslu á öllum tímum,“ segir Þórólfur. 

Veiran gæti enn breyst mikið

En hvað þýðir þá að lifa með veirunni? Að sætta sig við að yngra og óbólusetta fólkið fái hana?

„Sko, við vitum ekki hvernig veiran verður. Við vitum ekki hvort hún breytist og verði eins og kvefveirur. Það eru fullt af veirum sem við erum að smitast af allt árið. Ef það sýnir sig að veiran er ekki að valda alvarlegum sjúkdómi hjá yngra fólki, þá er ásættanlegt frekar að yngra fólk fái þessa veiru eins og aðrar veirur. Ungt fólk og börn fá veirur yfir vetrartímann, mjög oft. Þess vegna þurfum við að fikra okkur áfram mjög hægt og sjá hverju það skilar. Ná upp góðu ónæmi og hafa góðar aðgerðir í gangi og slaka á hægt og rólega og sjá svo hvort það þurfi að grípa til einhverra annarra aðgerða ef eitthvað gerist sem við búumst ekki við,“ segir Þórólfur að lokum.