Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja hafa jarðýturnar klárar ef verja þarf byggð

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Almannavarnir vinna nú að lista yfir stórtækar vinnuvélar á Suðurnesjum. Ef hraun ógnar byggð eða mikilvægum innviðum verða gerðar stíflur eða grafnar rásir til að beina hrauninu í annan farveg. 

Dældu sjó á hraunið og björguðu höfninni

Í Vestmannaeyjagosinu, árið 1973, héldu heimamenn aftur af hrauninu með því að dæla á það sjó, þannig var höfninni bjargað. Nú vinna almannavarnir viðbragðsáætlanir um hvernig best sé að verja mikilvæga innviði á Reykjanesskaga, komi til eldgoss þar - allt í samvinnu við sérfræðinga á svæðinu. „Í fyrsta lagi þarf að meta hvaða innviðir þetta eru sem eru í hættu, hvernig hætta steðjar að þeim og hvort það borgi sig að fara í varnaraðgerðir eða hvort það sé ódýrara að láta innviðina fara og byggja nýja,“ segir Rögnvaldur ÓIafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Hraunið hamið í Vestmannaeyjum 1973.

Jarðýturnar ekki ræstar til að bjarga Suðurstrandarvegi

Nú er talið líklegast að það gjósi við Nátthaga og hraun renni í átt til sjávar. 
„Það væri mjög hentugt í sjálfu sér og þó það myndi fara yfir Suðurstrandarveginn og taka hann út í ákveðinn tíma, þá er það eitthvað sem væri mjög auðvelt að laga aftur,“ segir Rögnvaldur. Jarðýturnar yrðu sum sé ekki kallaðar út til að bjarga veginum, en öðru máli gegnir um verri og langsóttari sviðsmyndir, svo sem ef hraun skyldi ógna Grindavík eða renna í átt að Svartsengi. Þar eru hús og starfsemi sem má einfaldlega ekki missa og því þyrfti að setja upp varnarvirki. „Við erum bara að lesa í landslagið og sjá hvernig væri hægt að vinna með það, hvar væri hægt að dýpka landslagið til að búa til rásir fyrir hraunflæði og hvar væri hægt að setja upp veggi til að stýra þessu frá mikilvægum innviðum á svæðinu.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Suðurstrandarvegur.

Hægt að kalla út dæluteymi frá meginlandi Evrópu

Rögnvaldur segir að það sé líka inni í myndinni að beita kælingu og hægt að kalla út dæluteymi af meginlandi Evrópu með stuttum fyrirvara. Í Vestmannaeyjum var kæling eina færa leiðin en Rögnvaldur segir áhrifaríkara að nota jarðveg til að stýra hraunflæðinu. Það er einmitt verið að skrá fjölda og staðsetningu þeirra vinnuvéla sem hægt væri að nýta. 

Það er afar ólíklegt að hraunið ógni Grindavík eða Svartsengi, fari að gjósa nú en Almannavarnir vilja vera viðbúnar því versta, svo eiga þær áætlanir sem nú eru unnar með hraði vegna umbrotanna við Fagradalsfjall, að nýtast áfram, enda allur skaginn vel virkur. „Þó svo að þessi atburðarás hætti núna þá eigum við þetta allt saman til, ef að einhver önnur svona atburðarás fer í gang á þessu svæði seinna meir,“ segir Rögnvaldur. 

Fólkið í forgangi

Áður en farið var í að vinna viðbragðsáætlanir sem lúta að því að bjarga innviðum var gengið frá áætlunum um hvernig skuli bjarga fólki, gerist þess þörf. Rögnvaldur segir að hægt væri að rýma Grindavík á tveimur klukkustundum, það er rúmur tími enda ekki gert ráð fyrir að hraun renni hraðar en sem nemur 400 metrum á klukkustund. „Síðan eru til plön um eftirfylgni þar sem er farið um svæðið til að tryggja að allir hafi farið. Svo treystum við alltaf á það sem við köllum nágrannahjálp, að fólk gefi vinum og ætingjum gaum og passi upp á að allir komist í burtu ef þær aðstæður skapast.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV