Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ungmennaráð greinir á um lækkun kosningaaldurs

15.03.2021 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Nokkur sveitarfélög hafa lýst sig andvíg hugmyndinni um að kosningaaldur verði lækkaður um tvö ár, úr 18 ára í 16 ára, og ungmennafélög eru ekki á einu máli. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, lagði fram frumvarp þess efnis í október ásamt öðrum þingmönnum Pírata og nokkrum úr Samfylkingunni og Viðreisn.

Frestur til að senda inn umsögn um frumvarpið rennur út í dag. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sendi frumvarpið til umsagnar meðal annars til allra sveitarfélaga og ungmennaráða sveitarfélaga.

„Ungt fólk hefur löngum þurft að þola lýðræðishalla hvað varðar aðkomu að vali á kjörnum fulltrúum og vægi á framboðslistum stjórnmálasamtaka. Lækkun kosningaaldurs mundi styrkja rödd ungu kynslóðarinnar og leiðrétta þennan lýðræðishalla. Þetta mundi jafnframt auðga stjórnmálin með nýjum hugmyndum um leið og þjóðin er að eldast,“ segir í greinargerð um frumvarpið

Telja kosningaaldur og sjálfræði eiga að fara saman

Níu sveitarfélög hafa sent inn umsögn og fæstum þeirra hugnast lækkun kosningaaldurs. Í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar segir að byggðarráð telji eðlilegt að sjálfræðisaldur og kosningaaldur, sem er 18 ára, fari saman. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps er þessu sammála og einnig Hörgársveit, Dalabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur, og mörg sveitarfélaganna telja óeðlilegt að kosningaaldur sé annar en kjörgengisaldur.

Sveitarfélag Hrunamannahrepps leggst einnig gegn frumvarpinu: „Sveitarstjórn telur ekki æskilegt að lækka kosningaaldur og að með tilkomu m.a. ungmennaráða hafi ungmenni tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri,“ segir í umsögn. Dalabyggð leggur til að kosningaaldur og kjörgengi miðist við 18. almanaksárið, en ekki 18 ára aldur.

Lægri kosningaaldur setji mál ungs fólks á dagskrá

Hafnarfjarðarbær styður hins vegar frumvarpið. „Unga fólkið í Hafnarfirði hefur sýnt það að þau hafa málefnalegar skoðanir og færa fyrir þeim haldbæran rökstuðning og eru fyllilega hæf í að axla þá ábyrgð að hafa kosningarétt. Með því að lækka aldurinn má ætla að málefni ungs fólks verði á dagskrá og velferð barna, unglinga og ungs fólks verði höfð enn meira að leiðarljósi í allri stefnumótun og ákvörðunartöku stjórnmálanna,“ segir í umsögn Hafnarfjarðarbæjar. 

Grundarfjarðarbær er á sama máli og telur eðlilegt að tryggja samræmi milli skattskyldu og kosningaréttar. 

Ungt fólk hefur áhuga, vilja og getu

Ungmennaráð Akureyrarbæjar styður frumvarpið: „Ungt íslenskt fólk hefur áhuga, vilja og getu til að taka ábyrgð. Ungt fólk á Íslandi byrjar að greiða skatt þegar það nær 16 ára aldri og greiðir skatt restina að lífi, samt fær það ekki að kjósa um hvert þessi peningur fer líkt og allir aðrir skattgreiðendur, 18 ára og eldri,“ segir í umsögn ráðsins. Það sama má segja um ungmennaráð Strandabyggðar, sem styður lækkun kosningaaldurs en leggur til að miðað verði við fæðingarár kjósanda í stað fæðingardags. Ungmennaráð Árborgar lýsir yfir fullum stuðningi við frumvarpið og telur það til þess fallið að auka tækifæri ungs fólks til að hafa áhrif í samfélaginu. Þá nefnir ráðið að skattgreiðendur ættu að hafa kosningarétt og vísar til góðrar reynslu af lækkun kosningaaldurs erlendis.  

Málefnum fullorðinni þröngvað upp á börn

Ungmennaráð Ölfus er hins vegar á öðru máli og telur 16 ára unglinga „ekki reiðubúna til að taka ákvarðanir sem þessar“. Með því að gefa þeim kosningarétt telur ráðið málefnum fullorðinna þröngvað á börn. Ungmennaráð Reykjanesbæjar telur einnig óráðlegt að lækka kosningaaldur niður í 16 ár og telur það auka hættu á að ungt fólk kjósi á þá lund sem foreldrum eða forráðamönnum hugnast helst. 

Ungmennaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar er sammála sveitarstjórninni og leggst gegn breytingunni: „Ungmennaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar komst að þeirri niðurstöðu að almennt eru ungmenni ekki tilbúin til þess að mynda sér svona veigamiklar skoðanir 16 ára gömul þar sem lítil fræðsla um þessi málefni fer fram á grunnskólaaldri,“ segir í umsögninni. Þar stingur ráðið upp á öðrum leiðum til að auka þátttöku ungs fólks: „t.d. ungmennaráð eða barna- og ungmennaþing innan sveitarfélaga. Kjörnir fulltrúar gætu líka boðað til funda með ungmennum/börnum og þannig fengið að heyra þeirra skoðanir.“

Barnaheill og Barnaverndarstofa styðja frumvarpið

Barnaverndarstofa styður við lækkun kosningaaldurs niður í 16 ára. „Að mati stofunnar er slíkt til þess fallið að auka lýðræðislega þátttöku barna og möguleika þeirra á að hafa áhrif á samfélagið sem þau tilheyra í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir í umsögninni. Og stofan tekur líka vel í hugmyndir um að auka fræðslu á sviði lýðræðis og samfélagslegrar virkni. 

Samtökin Barnaheill styðja einnig frumvarpið og taka sérstaklega fram að þau telji óþarfi að hafa áhyggjur af því að of mikil ábyrgð sé lögð á börn með því að veita þeim rétt til að kjósa, enda sé kosningaréttur réttur, en ekki skylda. „Samtökin hafa enn fremur ekki áhyggjur af því að börn verði mötuð á stjórnmálaskoðunum foreldra sinna. Þannig er því nú þegar mjög víða háttað um ungt fólk sem tekur sín fyrstu skref í lýðræðisþátttöku. Fólk þróar með sér sínar skoðanir á æviskeiði sínu og verður fyrir áhrifum úr öllum áttum, sem meðal annars verða hluti af þeirra eigin skoðunum,“ segir í umsögninni. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV