Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ítalir eru orðnir andlega þreyttir“

15.03.2021 - 21:56
epa09077011 Only few people walk in the streets of the semi-deserted Trastevere district on the first day of the entry into force of the new measures against the COVID-19 pandemic adopted by the government, in Rome, Italy, 15 March 2021.  EPA-EFE/GIUSEPPE LAMI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Ítalir eru orðnir andlega þreyttir á Covid nítján faraldrinum, segir íslensk kona sem er búsett þar. Það hafi slæm áhrif á samfélagið. Hertar aðgerðir tóku gildi um mestallt landið í gær og beitir lögreglan sektum óspart, meira að segja í barnaafmælum.

 

Það er ár síðan Ítalía varð fyrsta Evrópulandið þar sem faraldurinn breiddist út, með tilheyrandi lokunum. Útbreiðsla nýrra afbrigðis hefur nú valdið því  að lokanir tóku gildi í dag í stærstum hluta landsins fram yfir páska. Skólar eru lokaðir sem og verslanir sem selja ekki nauðsynjar og veitingastaðir mega aðeins selja mat sem er tekinn heim. En þetta eru þó vægari aðgerðir en fyrir ári.

„Það er meira opið núna. Fólk fer að vinna, það er ekki alveg lokað eins og var fyrir ári síðan,“ segir Hildur Hinriksdóttir sem starfar sem hönnuður í Róm. 

Hildur segir Ítala sátta við aðgerðirnar. „En þeir eru orðnir andlega þreyttir. Og það er mjög erfitt í gegnum kerfið að komast í sálfræði- eða geðlæknaaðstoð, það er eiginlega ómögulegt. Þannig að þetta bitnar mjög mikið á samfélaginu.“ Hildur nefnir sem dæmi að talið er að þrefalt fleiri konur séu myrtar í útgöngubanni en venjulega.

Ítalir hafi líka áhyggjur af áhrifum faraldursins á börnin. „Ég er í hópum með foreldrum í bekknum hjá sonum mínum. Og það var ein mamman sem skrifaði: „Jæja, þá eru þau komin aftur í búr“.“

Þá má fólk ekki fara neitt nema eiga erindi, og lögreglan krefst skriflegra vottorða um það. Því er svo fylgt eftir. Meðal annars heimsótti hún barnaafmæli í gær þar sem voru of margir fullorðnir. „Þar voru gefnar út 14 sektir, upp á 400 evrur hver sem er 62-63 þúsund krónur. Og þeir gera þetta ítrekað.“

Hildur segir Ítala misjafnlega bjartsýna á að þetta dugi til að hefta útbreiðsluna. „Ég er vongóð um að þetta verði ekki meira en þrjár vikur.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir