Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hugnast ekki óhóf innan Arion banka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarformaður Gildis, sem er stærsti hluthafi í Arion banka, segir tillögur um launahækkanir til stjórnarmanna og útvíkkað kaupaukakerfi bera merki um óhóf innan bankans. Laun stjórnenda séu nú þegar í hæstu hæðum og ekki á þau bætandi.

Aðalfundur Arion banka verður haldinn á morgun. Fyrir fundinum liggja meðal annars tillögur um útvíkkun á kaupaukakerfi fyrir starfsmenn bankans og hækkun launa til stjórnarmanna. Verði tillagan samþykkt hækka mánaðarlaun stjórnarformanns úr 980 þúsundum í 1,2 milljónir og laun almennra stjórnarmanna úr 490 þúsundum í 600 þúsund.

Launin þegar í hæstu hæðum

Lífeyrissjóðurinn Gildi tilkynnti fyrir helgi að hann leggist gegn tillögunum. Stefán Ólafsson, stjórnarformaður Gildis, segir að ef samþykkja eigi árangurstengt launakerfi eigi stjórnendur bankans að vera með lægri föst laun. Laun innan bankans séu nú þegar hærri en gengur og gerist, bæði í öðrum bönkum og á markaði. „Þarna eru með launin í hæstu hæðum og ætla að bæta umtalsverðum kaupaukum ofan á þau. Þetta fer út úr öllu korti,“ segir Stefán. Spurður að því hvort hann telji óhóf viðgangast innan bankans svarar hann: „Já, manni hugnast þetta ekki“.

Þá séu tillögur um launhækkanir til handa stjórnarmönnum úr takti við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. „Við sjáum fulla ástæðu til að spyrna við og ekki viljum við fara að endurtaka óhófið sem tíðkaðist í aðdraganda hrunsins“.

Ólík afstaða lífeyrissjóðanna

Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem einnig er á meðal stærstu hluthafa, leggst einnig gegn launahækkunum stjórnarmanna. Hann hyggst hins vegar greiða atkvæði með tillögu um kaupauka og kauprétti en hvetur þó stjórn bankans til að endurskoða starfskjarastefnu félagsins.

Harpa Jónsdóttir, formaður LSR sem á tæplega 8 prósenta hlut í bankanum, segir í samtali við fréttastofu að sjóðurinn sé hugsi yfir tillögum um launahækkanir til stjórnarmanna og kemur afstaða sjóðsins í ljós við atkvæðagreiðslu á morgun. LSR gerir hins vegar ekki athugasemdir við aðrar tillögur sem fyrir fundinum liggja.