
Grænum fingrum borgarbúa greinilega að fjölga
Um 600 matjurtagarðar eru leigðir út á vegum borgarinnar, þar af eru 200 í Skammadal. Einnig eru garðar í Vesturbæ, Fossvogi, Laugardal, Árbæ og í Grafarvogi. Garðarnir verða opnaðir þann 1. maí og til stendur að fjölga kössum í Fossvogi auk þess sem settir verða upp nokkrir kassar á Kjalarnesi.
"Ásókn í matjurtagarða er mjög mikil í ár. Eftir að hafa tekið við fyrstu umsóknum myndum við halda að hún sé jafnvel meiri en í fyrra, en þá leigðum við frá okkur alla þá skika sem í boði voru. Við erum að sjá fram á biðlista mjög fljótt, líklegast í þessari viku. Þetta er töluverð breyting frá því sem verið hefur, en fyrir sumarið í fyrra var ásókn í þessa garða frekar lítil.
Við erum ekki búin undir alla þessa aðsókn, þurfum að fjölga eitthvað skikum eða fara aðrar leiðir við úthlutun en tíðkast hefur undanfarin ár,“ segir í skriflegu svari frá garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar við fyrirspurn fréttastofu.
Í dag var opnað fyrir umsóknir í garðana og strax á fyrsta degi hefur aðsóknin verið talsverð, og er þegar búið að úthluta allt að tæplega 90 prósentum skika á vissum stöðum. Svo virðist sem akuryrkja og ræktun matvæla skipti fólk auknu máli, jafnt í þéttbýli sem og í dreifbýli.