Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki einhugur um áfengissölu í Hlíðarfjalli

15.03.2021 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: Hlíðarfjall.is - RÚV
Ágreiningur var í bæjarráði Akureyrar þegar þar var tekin fyrir beiðni frá Sýslumanninum á Norðurlandi eystra sem óskaði eftir umsögn vegna umsóknar AnnAssist ehf. um rekstrarleyfi fyrir vínveitingar á veitingastað í Hlíðarfjalli.

Bæjarlögmaður vísaði málinu til bæjarráðs því það geti talist stefnumarkandi þar sem óskað er vínveitingaleyfis í tengslum við útivistarsvæði sem Akureyrarbær rekur.

Fjórir fulltrúar í bæjarráði samþykktu að veita jákvæða umsögn vegna umsóknarinnar, en Hilda Jana Gísladóttir oddviti Samfylkingarinnar sat hjá við afgreiðsluna. Hún bókaði að nauðsynlegt væri að fá umsögn forvarnafulltrúa Akureyrarbæjar um sölu áfengis í Hlíðarfjalli og umgjörð slíkrar sölu áður en umsögn er veitt. 

Sóley Björk Stefánsdóttir, áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna, telur sölu áfengis í Hlíðarfjalli ganga harðlega gegn forvarnastefnu Akureyrarbæjar og á engan hátt viðeigandi. Þá samræmis þessi ákvörðun engan veginn því ákvæði í samstarfssáttmála bæjarstjórnar um að setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang. Mikil hætta geti skapast í brekkunum hafi skíðafólk ekki fulla stjórn á hreyfingum sínum.