
Vonir standa til að Baldur sigli að nýju á miðvikudag
„Þetta er sagt með öllum fyrirvörum um að vel gangi að fá túrbínuna til landsins í dag og viðgerð gangi samkvæmt áætlun,“ segir í upplýsingum frá Sæferðum sem reka Baldur.
Greint er frá þessu á vef Vegagerðarinnar en vél Baldurs bilaði á Breiðafirði síðastliðinn fimmtudag þannig að draga þurfti skipið í höfn í Stykkishólmi. Farþegar þurftu að hafast við um borð í rúman sólarhring en siglingin yfir Breiðafjörð tekur venjulega tæpar þrjár klukkustundir.
Þörf er á að skipta túrbínunni út en svo virðist sem lega hafi gefið sig. Von er á nýrri túrbínu til Reykjavíkur í kvöld og strax verður farið með hana í Stykkishólm.
Reiknað er með viðgerð á morgun, reynslusiglingum á þriðjudag og sem fyrr segir gangi allt upp verði reglulegar siglingar teknar upp á miðvikudag.