Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Það þarf bæði hugrekki og stórt hjarta

14.03.2021 - 21:14
Mynd: RÚV / Skjáskot
Tugir barnlausra para og einstaklinga bíða eftir því að þiggja bæði egg og sæði hjá læknastofunni Livio sem sérhæfir sig í frjósemismeðferðum. Kórónuveirufaraldurinn setti strik í reikninginn og biðlistar lengdust. Yfirlæknir segir að það þurfi bæði hugrekki og stórt hjarta til að gefa kynfrumur. 

„Í dag eru rúmlega 60 sem bíða hjá okkur. Sem er auðvitað mikið. Því miður núna, þegar gengur yfir heimsfaraldur sem gerir það að verkum að allt gengur mun hægar, þá er biðin orðin rúmlega tvö ár,“ segir Snorri Einarsson yfirlæknir á Livio.

Undanfarin ár hafa 20-30 íslenskar konur gefið egg á hverju ári. En þær voru átta í fyrra. Snorri segir ljóst að það sé bæði samkennd og skilningur fyrir þessu í samfélaginu. „En það þurfa fleiri að stíga skrefið áfram. Þetta er stór ákvörðun, það þarf mikið hugrekki og stórt hjarta, mikla gjafmildi til að láta verða af þessu. Gjafirnar verða ekki mikið stærri en einmitt þessi.“

Snorri segir mikilvægt að konur, sem vilji gefa egg átti sig á hvað felist í því, meðal annars nokkura vikna hormónameðferð. Þær þurfa að vera hraustar, ekki bera arfgenga sjúkdóma og vera 23-35 ára. Kona sem gefur egg á rétt á að fá að vita hvort úr því verður barn, en getur valið hvort barnið á rétt á að rekja uppruna sinn. 

„Þetta er eitthvað sem þarf að hugsa fyrirfram - hvað finnst manni um það í framtíðinni að þessi staða gæti komið upp,“ segir Snorri.

En það vantar ekki bara egg, heldur líka sæði. „Það er heldur auðveldara fyrir karla að gefa sæði sitt svona líkamlega. Við erum einmitt að vinna í því líka að fá hrausta íslenska karlmenn með stórt hjarta og gjafmildi að gefa sáðfrumur.“