Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Reynslusögur úr stóra skjálftanum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Vörur hrundu úr hillum í verslun í Grindavík, hjón köstuðust til á bíl sínum í skjálftamiðjunni, veggir aflögðust, munir skulfu á Kirkjubæjarklaustri og íbúi í Reykjanesbæ fann vel fyrir skjálftanum og var hann þó staddur í Bíldudal. 

Mikið af vörum hrundi niður á gólf í Nettó

Í Grindavík fór skjálftinn ekki fram hjá neinum, til dæmis í versluninni Nettó þar sem heyrðust miklar drunur þegar skjálftinn reið yfir:

„Það bara byrjaði allt að nötra og skjálfa hérna og hrundi úr hillum og fólki var náttúrulega ofboðslega brugðið sem var hérna í búðinni. Það fóru hérna sjampóbrúsar og gólfsápur út um allt og mjólkurvörur og kryddin og sulturnar. Við vorum alveg í dágóðan tíma að þrífa hérna upp eftir þetta.“ 

Segir Helga Guðrún Sævarsdóttir starfsmaður í Nettó.

Höfðu enga stjórn á bílnum

Þau Ebba Ásgeirsdóttir og Guðni Guðjónsson voru því sem næst stödd í skjálftamiðjunni. Þau voru akandi á Suðurstrandarvegi á stórum bíl austan Grindavíkur ekki langt frá Festarfjalli og Borgarfjalli. 

„Þá er bara eins og það sé kippt til hliðar bílnum. Hann missir bara jafnvægið, bíllinn. Þetta eru ótrúlega miklir kraftar sem virðast vera þarna á ferðinni,“ segir Guðni. 

Sástu einhverjar skemmdir í veginum?

„Nei, en við sáum hrun í fjöllum og þarna úr berginu vinstra megin þegar maður keyrir niður hjá gryfjunum, niður af fjallinu, þar var augljóst að það hafði farið stór fylla niður af því að rykið var ekkert sest þó að við færum niður í Grindavík og snerum við og keyrðum til baka aftur þá var rykið ennþá í loftinu.“

En eruð þið eitthvað skelkuð?

„Við erum uppalin í Hveragerði þannig að við þekkjum skjálfta vel en við höfum aldrei upplifað svona í bíl. Og þetta er svolítið magnað þegar maður hefur ekki stjórn á svona stórum bíl að hann kastast til bara á veginum, hoppar bara fram og til baka. Og þú hefur ekki stjórn á bílnum sko,“ segir Ebba Ásgeirsdóttir.

Sprungur í húsi formanns björgunarsveitarinnar

Enginn útköll voru hjá björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík en formaður hennar Bogi Aldolfsson þurfti líka ýmsu að sinna heima hjá um fjóra og hálfan kílómetra frá upptökum skjálftans: 

„Sprunga sem var í bílskúrnum gliðnaði aðeins upp, svo fór frá veggur eða svona færðist til frá loftinu. Og svo gliðnaði aðeins í einu horninu í eldhúsinu eða platan gekk aðeins til. Sem betur fer vorum við búin að taka allt niður. Það voru bara einhverjir tveir hlutir sem duttu niður.“

Stökk upp úr sófanum og stóð ekki á sama

Guðmundur Halldórsson var að vinna á lyftara í Grindavík þegar skjálftinn varð í hádeginu og lyftarinn hristist hressilega og hann horfði á vörubíla rugga fram og til baka.  
  
„Og svo klukkan tvö þá var ég bara nýkominn heim og var nýlagstur í sófann. Og það er ekki oft sem ég stíg upp úr sófanum við þessa skjálfta en mér stóð nú eiginlega ekki orðið á sama þegar stóri skjálftinn reið yfir,“ segir hann. 

Og hristist allt og glamraði í stofunni?

„Já, já, já, ég er með ljósakrónu í loftinu og hún dinglaði dálítið vel á eftir. Og það duttu hérna styttur og ég forðaði nú því sem var eftir á hillunni niður.“

Fann skjálftann í Bíldudal

Margir hlustendur höfðu samband við Fréttastofu eftir skjálftann. Sverrir Júlíusson, sem búsettur er í Reykjanesbæ, er nú staddur á Bíldudal. Og hann átti ekki von á að finna þar fyrir jarðskjálftum á Reykjanesskaga þar. Hann sat í kyrrstæðum bíl og fann skjálftann greinilega.

„Þetta var rosalega skrýtið. Þetta var ekkert mikið en þetta var alveg nóg þannig að maður fann alveg fyrir honum.“

Fannst nánast út um allt

Fólk ruggaði til í sófa sínum á Flúðum, hlustandi á Eyrarbakka segir að rúm sitt hafi ruggað til og þvottagrind í Bryggjuhverfinu í Reykjavík vaggaði vel og lengi. Íbúi í Keflavík sendi Fréttastofu mynd af sprungu í vegg sem myndaðist í skjálftanum. Hlutir ultu um koll í Hafnarfirði og strákur sem staddur var á salerni í Staðarskála þurfti að styðja sig við vegg þegar skjálftinn reið yfir. Starfsmenn og heimilisfólk á efstu hæð á Elliheimilinu Grund í Reykjavík fundu mjög mikinn hristing.  Hlustandi í Búðardal segir að líklega hafi íbúar þar ekki áður upplifað högg líkt og því sem varð í þessum skjálfta. Tvær konur þar kipptust til á stólum sínum og þurftu að halda við sjónvarp svo það ylti ekki um koll. Skjálftinn fannst víða í Borgarfirðinum og í Borgarnesi hrikti í húsum. Einn hlustandi sagði að hestar þar væru pínu stjarfir en að þeir héldu áfram að éta hey.

Fannst æðilengi á Kirkjubæjarklaustri

Og á Kirkjubæjarklaustri sat Sigurlaug Jónsdóttir í stofunni heima hjá sér: 

„Svo heyri ég einhvern svona titring eða svona aðeins. Og svo fer ég að taka eftir því að stóllinn minn er ekki stöðugur. En svo tók ég eftir því og heyrði að það fór aðeins að glamra í glerstyttum á borði. Þetta tók æðilangan tíma og ég hef ekki orðið vör við neina jarðskjálfta hér á Kirkjubæjarklaustri síðan að þetta byrjaði á Reykjanesi.“