Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Rafmagn komið á að nýju í Hafnarfirði

14.03.2021 - 08:14
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason
Rafmagn á að vera komið á að nýju eftir að það fór af hluta Hafnarfjarðar laust fyrir klukkan átta í morgun. Að sögn HS Veitna var allt komið í samt lag rétt eftir klukkan tíu.

Íbúar í Hafnarfirði voru þó tilbúnir að slá á létta strengi þrátt fyrir rafmagnsleysið.

Íbúi í Smyrlahrauni lýsir yfir neyðarástandi á Facebook-síðu HS Veitna enda enda fyrsti kaffibolli dagsins ekki klár. Annar veltir fyrir sér hvort hann þurfi að kveikja eld úti í garði til að hita morgunkaffið. 

Sá þriðji kveðst ómögulega nenna að sækja Jet-boilerinn sinn til að sjóða vatn í kaffið. Sjö ára sonur einnar konu neitar að borða morgunmatinn sinn fyrr en rafmagnið kemst á aftur og önnur sagði baksturinn hjá sér ganga hægt. 

Rafmagn fór einnig af á hluta Hafnarfjarðar þar til á ellefta tímanum í gærkvöldi. Meðfylgjandi mynd tók Hallgrímur Indriðason fréttamaður þar sem sjá má dökkan flekk í bænum þar sem rafmagnsleysið ríkir.

Þá mátti sjá sár vonbrigði yfir því að missa af Daða og Gagnamagninu frumflytja Eurovision-lagið Ten Years, annar sagðist vera að poppa og að rafmagnið hefði farið af mínútu áður en það var tilbúið og þriðji íbúinn sagði sveran jarðskjálfta hafa toppað rafmagnsleysið hjá honum. 

Fréttin var uppfærð klukkan 11:00.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV