Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lögreglumenn slasaðir eftir ólæti í Liege

14.03.2021 - 04:46
Mynd: EBU / EBU
Nokkrir lögreglumenn eru slasaðir eftir að sló í brýnu á milli óeirðarseggja og lögreglu í belgísku borginni Liege í gærkvöld. Mótmæli á vegum Black Lives Matter hreyfingarinnar voru í borginni fyrr um daginn og fram á gærkvöld, en hópur sleit sig frá mótmælunum og lét öllum illum látum.

AFP fréttastofan hefur eftir lögreglu að hópurinn hafi beitt ofbeldi og stolið úr verslunum í borginni. Talskona lögreglu segir steinum hafa verið grýtt að lögreglustöð í miðborginni, sem og að lögreglubílum. Yfir 250 lögreglumenn voru kallaðir út til þess að kveða niður mótmælin. Þeir notuðu kraftmikla vatnsbyssu sér til aðstoðar. Níu þurftu að leita sér aðstoðar á sjúkrahúsi eftir ólætin, þar af fimm lögreglumenn, hefur AFP eftir talskonunni.

Black Lives Matter boðaði til mótmæla vegna aðgerðar lögreglu síðasta mánudag. Þá var kona handtekin fyrir mótþróa, en hún segir lögregluna hafa stjórnast af rasisma. Lögreglan hafnar því og segir konuna hafa sýnt mótþróa við handtöku.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV