Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hornsteinn Húss íslenskunnar lagður síðasta vetrardag

Mynd með færslu
 Mynd: arnastofnun.is
Uppsteypu Húss íslenskunnar við Arngrímsgötu í Reykjavík lauk fyrir skömmu og nú er lokun hússins á lokametrunum. Framkvæmdir við húsið sjálft hófust 30. ágúst 2019 þegar Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra undirritaði verksaming við ÍSTAK um byggingu þess.

Hornsteinn verður lagður að húsinu síðasta vetrardag, 21. apríl næstkomandi en þá verða 50 ár liðin frá því að fyrstu handritin komu frá Danmörku til Íslands.

Stjórnvöld lögðu fé til byggingar hússins árið 2005 en fyrsta skóflustungan var tekin árið 2013.

Grunnur var grafinn en eftir það gerðist fátt í sex ár nema hvað grunnurinn var meðal annars nýttur af nemendum í setlagafræði við Háskóla Íslands til að skoða og skrá setlög.

Forseti Íslands til veislu með 200 dönskum blaðamönnum

Grunnurinn gekk löngum undir heitinu Hola íslenskra fræða í daglegu tali. Í honum var kjörlendi gróðurs en á fjórða tug háplantna skaut rótum í rökum jarðveginum, þar á meðal aspir og víðir.

Síðla árs 2013 knúði Helgi Hjörvar, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Illuga Gunnarsson sem þá var menntamálaráðherra svara um kostnað við að fylla í grunninn og ganga frá lóðinni.

Af því varð ekki og nú eru framkvæmdir við húsið á undan áætlun. Lagnavinna og bygging innviða eru framundan og því mun starfsmönnum fjölga nokkuð en frá upphafi framkvæmda hafa þeir verið um 50 talsins.

Hús íslenskunnar er sporöskjulaga, stór og tæknilega flókin bygging sem meðal annars mun hýsa sérhannaða handritageymslu í kjallaranum.

Árnastofnun deilir byggingunni með Háskóla Íslands og þegar hún verður tilbúin flytjast kennsla og rannsóknir í íslenskum fræðum þangað.

Nú er búist við að Framkvæmdasýsla ríkisins og Ístak afhendi eigendum Hús íslenskra fræða í ágúst 2022.