Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Grammy bætist í verðlaunasafn Hildar fyrir Joker

This image released by NBC shows Hildur Gudnadottir accepting the award for best original score for "Joker" at the 77th Annual Golden Globe Awards at the Beverly Hilton Hotel in Beverly Hills, Calif., on Sunday, Jan. 5, 2020. (Paul Drinkwater/NBC via AP)
 Mynd: AP

Grammy bætist í verðlaunasafn Hildar fyrir Joker

14.03.2021 - 20:44

Höfundar

Hildur Guðnadóttir, tónskáld, hlaut í kvöld bandarísku Grammy-verðlaunin fyrir tónlist sína í kvikmyndinni Joker. Hún hlaut þessi sömu verðlaun á síðasta ári fyrir sjónvarpsþættina Chernobyl. Verðlaunin í kvöld eru einstök því hún hefur nú unnið Óskar, Bafta, Golden Globe og Grammy fyrir myndina.

Eins og með flestar verðlaunahátíðir í ár setur kórónuveirufaraldurinn sinn svip á Grammy. Hildur tók því við verðlaunum sínum gegnum fjarfundabúnað eftir að kynnirinn lenti í erfiðleikum með föðurnafn hennar.

Hún þakkaði leikstjóranum Todd Phillips fyrir þá trú sem hann hafði og það rými sem hann veitti henni þegar hún samdi tónlistina „Og ég vil líka þakka Sam mínum og Kára og allri tónlistarfjölskyldu minni fyrir töfra sína.“

Sigurganga Hildar og tónlistarinnar úr Joker hefur verið með miklum ólíkindum. 

Hún hlaut Óskar, Bafta og Golden Globe þegar helstu kvikmyndaverðlaunin voru afhent  í fyrra og bætir nú Grammy í safnið.

Hún vann reyndar þessi sömu verðlaun í fyrra en þá fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum Chernobyl sem fór líka sigurför um heiminn og hlaut meðal annars Emmy-verðlaunin.

Hildur vinnur nú að gerð tónlistar fyrir kvikmynd David O. Russell sem skartar meðal annars Robert De Niro, Margot Robbie, Christian Bale og Zoe Saldana í aðalhlutverkum.