Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Frægð, vinátta og eilíft líf

Mynd með færslu
 Mynd: Þorgeir H. Níelsson

Frægð, vinátta og eilíft líf

14.03.2021 - 14:30

Höfundar

Versló setur upp söngleikinn Fame/Feim. Þarna er allt á sínum stað; legghlífar, krumpugallar, herðapúðar, túberingar, vöfflur og „ælæner“, nýr söguþráður og smá David Bowie.

Nemendamótssýningar Verslunarskóla Íslands hafa í áraraðir verið með metnaðarfyllstu menntaskólasýningum landsins og í ár ráðast þau í 80’s söngleikinn Fame eða Feim eins og þau kalla sýninguna. Sýning Versló byggir lauslega á söngleiknum sem byggir á myndinni frægu frá árinu 1980 og sjónvarpsþáttunum sem fylgdu í kjölfarið. 80’s fílingur, listaskóli, draumar um frægð og frama koma upp í hugann þegar talað er um Fame en það er líka það eina sem handritshöfundur og leikstjóri sýningarinnar, Viktor Pétur Finnsson, tekur inn í sína sögu.  Handritið er sem sagt alveg splunkunýtt - áhorfendur fá meira að segja að sjá atriði úr söngleiknum Rocky Horror og njóta tónlistar Davids Bowie.  

Viktor segir að þessi leið hafi verið farin vegna þess að þau vildu fanga skemmtilega stemningu níunda áratugarins og Fame hafi svolítið dottið upp í hendurnar á þeim. „Þetta er svo skemmtilegt tímabil, flottir búningar og auðvelt að setja okkar krakka inn í þetta í listaskólaumhverfi. Við vildum svo breyta sögunni svo hún myndi passa sem best að hæfileikum okkar krakka. Það fá allir að njóta sín og nýta sína hæfileika.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þorgeir H. Níelsson
Mynd með færslu
 Mynd: Þorgeir H. Níelsson

Nýnemi í aðalhlutverki  

Þau sem fara með stærstu hlutverk sýningarinnar eru ekki að stíga sín fyrstu skref í leiklistinni og ferilskrá þeirra er löng og glæsileg. Það verður því að teljast líklegt að við munum njóta krafta þeirra á sviði og hvítum tjöldum um komandi ár. Katla Njálsdóttir sem við höfum séð í Ófærð, Hjartasteini, Föngum og leiksýningunni We Will Rock You leikur forsprakka Elítunnar og hennar hægri hönd er leikin af Gunnari Hrafni Kristjánssyni sem lék m.a. í sjónvarpsþáttaröðinni Fólkið í blokkinni og leiksýningunni Bláa hnettinum. Í þeirri leiksýningu voru líka Iðunn Ösp Hlynsdóttir og Guðríður Jóhannsdóttir og svo Bjarni Kristbjörnsson sem var einn af Billy Elliot strákunum og svo mætti lengi telja. Mikið hæfileikafólk í öllum hlutverkum og spurning hvort Hollywood sé handan við hornið - sem er jú einmitt markmið margra persóna í sýningunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þorgeir H. Níelsson

Aðalhlutverk sýningarinnar leikur Aron Gauti Kristinsson. Hann leikur Inga sem er leitandi, góðhjartaður strákur, sem kemst inn í draumaskólann sinn. Hann vill öllum vel en týnir sér aðeins í því að gera öllum til hæfis. Aron er á fyrsta ári í Versló og er þetta því hans fyrsta hlutverk fyrir skólann en Aron er einnig þessa dagana í leiksýningunni Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu.  

Viktor segir að nýnemar leggi svo hart að sér og að það sé ekkert nýtt að busarnir brilleri í Nemó-sýningum. „Það vantaði vinalegan gaur, sem er auðvelt að halda með, í þetta hlutverk og Aron var fullkominn í þetta. Aron er svona gaur sem getur allt. Hann er flottur leikari, geggjaður dansari, syngur vel og er í alvörunni svakalega næs gaur. Pínu ósanngjarnt fyrir okkur hin,“ segir Viktor og hlær.  

Mynd með færslu
 Mynd: Þorgeir H. Níelsson
Aron, Bjarni og leikhópurinn

Þetta er svo sannarlega ekki í fyrsta skipti sem nýnemi fer með aðalhlutverk sýninganna í Versló. Söngvarinn Jón Jónsson landaði t.d. aðalhlutverki í sýningunni Slappaðu af sem sett var upp árið 2002. Jón segir að þetta hafi verið truflaður tími og fyrst og ógeðslega skemmtilegt. „Þetta var fyrsta skrefið inn í bransann sem ég er að vinna við í dag. Við fórum í stúdíó og tókum upp lögin og unnum þetta með frábæru fagfólki sem ég lærði heilan helling af,“ bætir Jón við. Það voru engir aðrir en Gunnar Helgason og Felix Bergsson sem skrifuðu handritið og sáu um leikstjórn og Jón Ólafsson oftast kenndur við Ný dönsk sá um tónlistina.     

Jón segir að það hafi auðvitað verið magnað að upplifa það 16 ára gamall að sýna fyrir fullu Borgarleikhúsi kvöld eftir kvöld og vera orðin fyrirmynd fyrir yngri krakka. „Þarna áttaði ég mig á því ég að var orðin fyrirmynd og að það væri hægt að nýta það til að láta gott af sér leiða,“ bætir hann við. Jón talar um vinskapinn sem myndast í svona ferli. „Það er svo mikil vinna sem liggur að baki svona sýningu. Ferlið frá handriti til frumsýningar er svo skemmtilegt og krefjandi og að upplifa það með vinum sínum er ómetanlegt. Allir smita alla hina með sínum hæfileikum. Stelpurnar að kenna manni jive og svona,“ segir hann og skellir upp úr.  

Var kominn tími á að finna grunngildi Nemó  

Sýningarnar á Feim fara fram í íþróttasal Versló sem hefur nú verið breytt í leikhús meðan á sýningum stendur. Viktor segir að það hafi þurft að skoða þetta fram og til baka og meta kosti og galla áður en ákvörðun var tekin um að setja sýninguna upp í íþróttahúsinu. En eftir marga fundi með Nemó-nefndinni var ákveðið að kýla á þetta. „Þetta mátti ekki bitna á gæðum sýningarinnar því þessar sýningar eru þekktar fyrir að vera flottar og þar voru allir sammála - þetta varð að vera geggjað show. Við fórum svo yfir það hver eru grunngildin í Nemó-sýningunum og þar var ekki húsnæði efst á blaði heldur orð eins og orka og skemmtun. Við ákváðum að kýla á þetta og breyta íþróttahúsinu í leikhús og hafa þetta númer 1 2 og 3 skemmtilegt ferli, setja upp algjöra orkubombu og gera okkar allra besta til þess að skemmta áhorfendum. Og svo bara lúkkar þetta mjög vel og er alls ekki eins og íþróttahús.“  

Mynd með færslu
 Mynd: Elísabet Sara Gísladóttir
Íþróttahúsi breytt í leikhús
Mynd með færslu
 Mynd: Elísabet Sara Gísladóttir

Viktor, sem er 21 árs, var sjálfur nemandi í Versló, útskrifaðist fyrir 3 árum síðan og er því ekki mikið eldri en elstu nemendur skólans. „Þau eru í rauninni bara vinir mínir því ég leikstýrði þeim á seinasta árinu mínu, þá voru þau busar. Við settum upp Shawshank fangelsið svo ég hafði unnið með þeim mörgum áður og við þekkjumst vel.“ Viktor segir að sem leikstjóri þurfi að finna þennan gullna meðalveg, vera skemmtilegur en halda uppi aga og að það hafi gengið vel. Metnaðurinn sé svo mikill að allir skili sínu 100% alltaf og þá er hann ekki bara að tala um þau sem eru á sviðinu heldur alla sem koma að þessu.   

Þurfa að komast í íþróttatíma 

Takmarkaður sýningafjöldi er á Feim vegna þess að nemendur Verslunarskólans þurfa að komast í íþróttir. „Já, það er nokkuð ljóst að við getum ekki sýnt langt fram á vor þó svo það sé mikil eftirspurn eftir miðum. Uppselt er núna á 12 sýningar og verið er að reyna að bæta við aukasýningum eins og hægt er. Nemendur þurfa sína íþróttatíma,“ segir Viktor.   

Nú er spurning hvort atvinnuleikhúsin sjái sér leik á borði og taki sýninguna inn á svið hjá sér líkt og gert var fyrir 20 árum. Nemendamótssýningin Wake Me Up sem, eins og titillinn gefur til kynna gerist einnig á níunda áratugnum, var sett upp í Loftkastalanum en eftir að sýningum lauk þar voru sýningar teknar upp í Borgarleikhúsinu yfir sumarið. Spurning hvort að 80’s sýning ársins 2021 rati á fjalir atvinnuleikhúsanna í sumar líkt og sumarið 2001.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu nemendafélagsins, nfvi.is.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorgeir H. Níelsson